Hæstaréttalögmaðurinn Ragnar H. Hall skrifar pistil á Pressuna í dag þar sem hann fjallar um ummæli Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrum hæstaréttardómara, um að hæstaréttarlögmaðurinn Gestur Jónsson hafi fengið hagstæðar afgreiðslur á sínum málum fyrir réttinum sem „efast má um að sumir aðrir hefðu fengið“ hjá hæstaréttardómaranum Markúsi Sigurbjörnssyni. Ragnar segir ummæli Jóns Steinars fela í sér mjög alvarlegar dylgjur í garð dómara og spyr svo hvort „verið [sé] að gefa í skyn að Markús hafi allan starfstíma sinn í Hæstarétti verið í einhverju „góðvinahlutverki“ þegar Gestur Jónsson tengdist einhverjum málum?“. Ragnar og Gestur Jónsson eru á meðal eigenda lögmannstofunnar Markarinnar.
Kjarninn greindi frá því á föstudag að í hausthefti tímaritsins Þjóðmála hefðu birtst þrír kaflar úr væntanlegri bók Jóns Steinars sem kemur út í október. Hún ber heitið Í krafti –sannfæringar – saga lögmanns og dómara. Ummælin um Gest Jónsson koma fram í þessum köflum. Hægt er að lesa frétt Kjarnans um málið hér.
Truflaði ekki Jón Steinar að dæma í málum sem fyrrum samstarfsfélagar fluttu
Ragnar fjallar einnig um mögulega hlutdrægni Jóns Steinars í þeim málum sem fyrrum samstarfsmenn hans fluttu fyrir Hæstarétti á meðan að hann var dómari við réttinn. Orðrétt segir Ragnar: „Jón Steinar var skipaður dómari við Hæstarétt í október 2004. Undanfari þeirrar skipunar var óvenjulegur að því leyti, að lögmenn á tiltekinni lögmannsstofu tóku sig til og söfnuðu undirskriftum sem afhentar voru ráðherra, en þar var skorað á ráðherrann að skipa Jón Steinar í embættið. Ekki virtist það trufla Jón við að dæma í málum sem viðkomandi lögmenn fluttu, en það gæti líka verið efniviður fyrir áhugamenn um samsæriskenningar.
Jón Steinar rak eins og kunnugt er lögmannstofu í áratugi áður en hann varð dómari í Hæstarétti. Á árinu 1993 kom til starfa hjá honum Karl Axelsson lögmaður, og þeir störfuðu saman allt þar til Jón fór til dómarastarfa 2004. Karl varð meðeigandi að lögmannsstofunni einhvern tíma á þessu árabili. Þessi tengsl hindruðu Jón ekki í því að dæma í málum sem Karl flutti fyrir Hæstarétti, a. m. k. ellefu málum. Í tíu af þessum ellefu málum vissu lögmenn ekki hverjir dæmdu málin fyrr en þeir fengu dóminn í hendur. - Ég hef enga ástæðu til að ætla að Jón Steinar hafi verið hlutdrægur í þeim málum. Ég held því hins vegar fram gagnaðilar Karls hafi haft réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni Jóns Steinars í efa í þessum málum. Þessa athugasemd má ekki skoða sem sneið til Karls Axelssonar lögmanns, sem ég tel í hópi vænstu manna í lögmannastéttinni, enda getur hann ekki frekar en aðrir lögmenn stjórnað því hvaða dómarar fá mál til meðferðar í Hæstarétti. Dómarar gæta sjálfir að hæfi sínu til meðferðar hvers máls.“
Hægt er að lesa pistil Ragnars í heild sinni hér.