Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata ræddu biðtíma á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni og svokölluð farsælarlög þar sem meginmarkmiðið er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Björn Leví hóf fyrirspurn sína á að benda á að þann 12. júní 2019 hefði verið samþykkt á þingi framkvæmdaáætlun í málefnum barna. Allir greiddu atkvæði með áætluninni sem var kostnaðarmetin upp á rúma 1,2 milljarða króna.
„Ég finn að vísu einungis um 800 milljónir í fjárlögum síðan þá. Áætlunin snerist meðal annars um samstarf og heildarsýn í málefnum barna, snemmtæka íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir,“ sagði hann.
Meðalbiðtími um sjö og hálfur mánuður
Björn Leví greindi frá því að starfsfólk BUGL hefði komið á fund velferðarnefndar í vikunni og kynnt starfsemi sína og óásættanlegan biðtíma eftir meðferð. „Meðalbiðtími er um sjö og hálfur mánuður og aukning hefur verið í bráðatilfellum í COVID sem hefur slæm áhrif á þann biðlista. Helstu skilaboð starfsfólksins til okkar voru að efla ætti fyrirbyggjandi aðgerðir.“
Benti hann jafnframt á að framkvæmdaáætlunin næði einungis út þetta ár, 2019 til 2022, og að einsýnt væri að ekki næðist að klára öll þau verkefni sem eru tilgreind í þeirri áætlun.
„Það er til dæmis ekki einu sinni búið að taka fyrstu skóflustunguna að nýju meðferðarheimili í Garðabæ enn. Það er enn áhugaverðara að ný framkvæmdaáætlun í málefnum barna er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ef fjármagna ætti nýja áætlun ætti hún að vera tilbúin í vor til að hægt sé að taka tillit til hennar í fjármálaáætlun og í fjárlögum næsta árs.
Miðað við þetta, óljósar fjárheimildir vegna framkvæmdaáætlunar, að framkvæmdaáætlun er ekki að klárast, það vantar nýja framkvæmdaáætlun og það er fjöldi bráðatilfella hjá BUGL og biðlistar lengjast, spyr ég: Hvenær megum við eiga von á því að farsældarlögin fari að skila árangri? Er það á þessu ári, á næsta ári, eftir fimm ár? Ráðherra hlýtur að vita það með nægilegri nákvæmni til að geta sagt okkur það hér og nú: Hvenær fara farsældarlögin að skila árangri og meðferðarúrræði á fyrsta og öðru stigi að hafa áhrif á það að við þurfum í raun ekki að nýta þriðja stigið?“ spurði hann.
„Ég verð að segja að ég er mjög óþolinmóður maður“
Ásmundur Einar svaraði og sagði að staðan á BUGL væri óásættanlegt. „Í lok síðasta kjörtímabils vorum við búin að vinna sameiginlega vinnu, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, varðandi greiningu á þeim málum og biðlista almennt og ég og nýr heilbrigðisráðherra höfum rætt með hvaða hætti við förum inn í það mál. Ég hef fulla trú á því að hægt verði að ná mjög vel utan um þau mál, af því að þessi biðtími er algerlega óásættanlegur.“
Varðandi fyrirspurnina sjálfa þá sagði ráðherrann að það væri hárrétt hjá Birni Leví að hugsunin á bak við farsældarlöggjöfina væri að grípa fyrr inn í til að draga úr þriðja stigs úrræðum og þeim þáttum.
„Ég verð að segja að ég er mjög óþolinmóður maður. Lögin tóku gildi 1. janúar og ég myndi gjarnan vilja að við gætum látið þetta allt saman taka gildi einn, tveir og þrír. Það fjármagn til að mynda sem rennur til sveitarfélaga, hluti af fjármagninu rennur til sveitarfélaga og hluti til ríkis, samningum sem tengjast því er lokið. Það er búið að ljúka útfærslu á því og nýbúið að klára þá skiptingu þannig að það rennur til sveitarfélaganna. Það er gríðarlega mikilvægt að fara í samtal við skólakerfið, leikskólakerfið og framhaldsskólana.
Við erum byrjuð að ræða það mjög stíft núna við þá aðila sem þar eru en auðsjáanlega hefur COVID-faraldurinn talsverð áhrif vegna þess að það hefur ekki mikið annað komist að í skólakerfinu en að leysa dag frá degi úr málum vegna samkomutakmarkana. Væntingar mínar standa til þess að á þessu ári förum við að sjá ákveðinn árangur skila sér í því að við brjótum niður múra og getum gripið fyrr inn í og boðið upp á fyrsta og annars stigs úrræði. En við þurfum að vera meðvituð um að það mun taka þessa breytingu, sem þarf að teygja sig inn í alla anga í þjónustu við börn og ungmenni, þrjú til fimm ár að skila fullum árangri og það var markmiðið og uppleggið í lagafrumvarpinu þegar það var samþykkt hér síðasta vor,“ sagði hann.
Vandinn er að núvernandi framkvæmdaáætlun kláraðist ekki
Björn Leví þakkaði í framhaldinu skýr svör. „Á þessu ári eigum við að fara að byrja að sjá einhver viðbrögð og á þremur til fimm árum verður komin full innleiðing. Vandinn sem ég sé og ástæðan fyrir því að ég spyr er að núverandi framkvæmdaáætlun kláraðist ekki. Þá seinkar óhjákvæmilega öllu öðru síðar í ferlinu, allri annarri innleiðingu. Eins og staðan er núna þarf barn sem líður illa að bíða í rúma sjö mánuði eftir aðstoð,“ sagði hann.
„Við vinnsluna lagði ráðherra mikla áherslu á að reikna sparnaðinn sem fælist í því að grípa börn snemma, áður en vandinn yrði of stór, til þess að við þyrftum ekki þriðja stigs úrræðin, sem kosta mikið og barnið er komið á gríðarlega skaðlegan stað þegar svo er komið. Við eigum í vandamálum með ákveðna mönnun í þessum úrræðum þannig að þegar allt kemur til alls, hvernig getur ráðherra sannfært okkur um að innleiðingunni verði lokið eftir þrjú til fimm ár?“ spurði Björn Leví.
Þurfa að endurskipuleggja öll úrræðin
Ásmundur Einar svaraði í annað sinn og sagðist taka undir með þingmanninum þegar hann velti fyrir sér hvernig hægt væri að sannfæra þingheim um að ljúka innleiðingunni.
„Ég held að það sé hægt að gera það með því að vera í samfelldu samstarfi við þingið. Hluti af löggjöfinni felst í því að kjósa sérstaka þingmannanefnd sem á að vinna með ráðuneytinu að innleiðingunni, þannig að við munum gera allt sem við getum til að ljúka innleiðingunni að fullu. En það er alveg rétt hjá háttvirtum þingmanni að það er þungur endi sem eru þriðja stigs úrræði í dag og við þurfum að fara ofan í það í bráð, þ.e. bráðavanda á einstaka stofnunum, BUGL og fleirum, en líka með hvaða hætti við ætlum að sjá úrræðin á þriðja stiginu.
Við þurfum að endurskipuleggja þau öll. Við hófum þá vinnu í lok síðasta kjörtímabils og höldum henni áfram núna vegna þess að það skortir líka samtal þar á milli. Það er oft þannig að barn sem er á einum stað velkist á nokkrum öðrum stöðum í viðbót. Þannig að löggjöfin mun líka auðvelda þriðja stigs endann á úrræðunum. Þess vegna leggjum við alla áherslu á innleiðingu þessarar löggjafar og það verður meginverkefni nýs mennta- og barnamálaráðuneytis að innleiða hana,“ sagði ráðherrann og þakkaði Birni Leví fyrir fyrirspurnirnar og orðaskiptin um þetta mál.