Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum fjármálaráðherra, segir að samkvæmt áætlun um dreifingu skuldaniðurfellingaraðgerðar ríkisstjórnarinnar, hinnar svokölluðu Leiðréttingu, skuldir tekjuhæstu 30 prósent landsmanna yfir 64 prósent af öllum íbúðalánum. Þeir fái því 51 milljarð króna af þeim áttatíu sem skuldaniðurfellingarnar eiga að kosta. Þau þrjátíu prósent þjóðarinnar sem hafi minnstu tekjurnar fái hins vegar einungis fimm milljarða króna. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun þar sem Oddný var á meðal gesta.
Í samtali við Kjarnann segir Oddný að áætlunin sé byggð á upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Þessar tölur hafi verið lagðar fram í nefndaráliti minnihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarp og áætlunin passi auk þess við upplýsingar sem gefnar voru við kynningu á skuldaniðurfellingunum. Engin hafi mótmælt þessum tölum hingað til.
Leiðréttingin, skuldaniðurfellingaraðgerð ríkisstjórnarinnar, snýst um að láta um 80 milljarða króna renna úr ríkissjóði í niðurgreiðslur á húsnæðislánum, eða í sérstakan persónuafslátt, hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009.
Beðið eftir skýrslu ráðherra
Skýrsla Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána hefur verið í lokayfirlestri í ráðuneyti hans nánast allan maímánuð. Upphaflega stóð til, samkvæmt svörum frá ráðuneytinu, að leggja hana fyrir Alþingi í fyrri hluta maímánaðar. Hún hefur hins vegar enn ekki verið lögð fram.
Oddný segir að hún hafi ekki séð skýrsluna og því byggi áætlun hennar ekki að neinu leyti á henni.
Upplýsingar í kynningu takmarkaðar
Þegar útfærsla á skuldaniðurfærslum ríkisstjórnarinnar var kynnt í lok síðasta árs var það gert með glærukynningu. Í þeirri glærukynningu vantaði mikið af upplýsingum um skiptingu niðurfærsluupphæða á milli tekju- og aldurshópa. Það vantaði líka upplýsingar um frádráttarliði og hvernig upphæðin sem rynni úr ríkissjóði vegna aðgerðanna, alls um 80 milljarðar króna, myndi dreifast á mismunandi landssvæði.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði því fram fyrirspurn í 15 liðum um málið á Alþingi þann 11. nóvember 2014.
Bjarni svaraði fyrirspurn hennar tæpum mánuði síðar með því að svara ekki þeim spurningum sem Katrín hafði lagt fyrir hann. Þess í stað sagði í svarinu að ráðherrann hyggðist leggja „fyrir Alþingi ítarlega skýrslu um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána þar sem m.a. verður fjallað um þau atriði sem spurt er um í þessari fyrirspurn. Skýrslan mun byggjast á stöðu úthlutunar eins og hún verður við lok samþykkisfrests á ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar en eins og er vantar of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt sé að draga nægilega marktækar ályktanir um þetta mál. Reiknað er með því að skýrslan verði tilbúin og kynnt á vorþingi“.