Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vonast til að þingið geti sammælst um tilteknar breytingar er lúta sérstaklega að því að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, og sérstaklega stærstu fyrirtækja landsins, vegna þess að sú samþjöppun sem átt hefur sér stað sé ekki sanngjörn. Hún sé ekki réttlát og ekki í samræmi við væntingar samfélagsins um það hvernig þessari atvinnugrein á að vera fyrir komið.
Þetta kom fram í máli ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði hana meðal annars hver skoðun hennar væri á sjávarútvegskerfinu.
Þorgerður Katrín hóf mál sitt á því að segja að birtingarmynd sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarflokkanna síðastliðin fjögur ár kæmi fram í mun hærri arðgreiðslum til eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna en þau borguðu ríkinu í veiðigjöld.
Vilja ekki kollvarpa kerfinu heldur breyta því
„Síðan er það reyndar önnur birtingarmynd þessa dagana að það á skerða hlut smábátasjómanna. Við skulum líka hafa það hugfast að ríkið á eftir þetta að greiða alla þjónustu fyrir útgerðirnar sem tengist til að mynda Hafró, Verðlagsstofu skiptaverðs og Fiskistofu. Kvótakerfið, vel að merkja, var á sínum tíma mikilvægt og það var nauðsynlegt skref fyrir hagkvæman og sjálfbæran sjávarútveg. Vill Viðreisn kollvarpa kerfinu? Nei, en við viljum breytingar, tvímælalaust, því kerfið þarfnast uppfærslu fyrir þjóðina sem eins og sakir standa er algerlega misboðið hvernig fyrirkomulagið er varðandi einkaaðgang að auðlindinni.
Við þurfum auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem undirstrikar skilyrðislausan rétt þjóðarinnar með tímabundnum samningum en ekki viðvarandi, óskilyrtan rétt útgerða líkt og stjórnarflokkarnir vilja. Við þurfum markaðsleið í sjávarútvegi eins og tæplega 90 prósent þjóðarinnar vilja til að tryggja hennar hlut. Þjóðin treystir ekki þessu möndli stjórnarflokkanna um flókið og vanáætlað veiðigjald því þetta er ekkert annað en möndl þeirra á milli,“ sagði þingmaðurinn.
Þá minntist Þorgerður Katrín á að sjávarútvegsráðherra ætlaði að skipa nefnd. „Gott og vel. Við vitum ekki hvernig hún verður skipuð. Það eina sem við vitum er að það er einn fasti og það er að SFS verður örugglega í nefndinni. En hver er skoðun ráðherrans sjálfs? Hún var ekki skoðanalaus í þverpólitískri nefnd sem hún sat í sjálf eftir kosningarnar 2016 og hún er það vart nú nema himnarnir fari að hrynja yfir mig.
Ég vil því spyrja í fyrsta lagi: Mun ráðherra beita sér fyrir markaðsleið í sjávarútvegi? Í öðru lagi: Mun hún beita sér fyrir tímabundnum samningum líkt og hennar nálgun var í þverpólitísku sáttanefndinni árið 2017? Og í þriðja lagi: Hver er skoðun ráðherrans á kerfinu? Hvar ætlar hún að beita sér fyrir breytingum í þágu þjóðarinnar, í þágu þess að við sjáum aukna sanngirni og réttlæti þegar kemur að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar?“ spurði hún.
Vill auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja
Svandís svaraði og sagði að hún hefði setið í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sjö vikur en að Þorgerður Katrín hefði verið í því embætti fyrir nokkrum árum í allnokkra mánuði. Hún sagði að það væri rétt að hún hefði setið í nefnd sem ætlað var að fara yfir fiskveiðistjórnarkerfið og leggja fram tillögur til úrbóta.
„Ekki vannst tími til að gera það á þeim tíma, en þau sjónarmið sem ég hélt til haga við það borð eru þau sjónarmið sem ég held enn til haga og mun gera, meðal annars viðhorf sem ekki fóru mjög hátt við borðið í þeirri nefnd, sem er krafan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það var mín afstaða þá og er enn að það er mikilvægt að það ákvæði sé í grunnlöggjöf íslenska ríkisins, þannig að það sé algjörlega á hreinu á hverju það hvílir.
Mínar væntingar standa til þess að við getum sammælst um tilteknar breytingar sem lúta sérstaklega að því að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, og sérstaklega stærstu fyrirtækja landsins, vegna þess að sú samþjöppun sem átt hefur sér stað er ekki sanngjörn. Hún er ekki réttlát og hún er ekki í samræmi við væntingar samfélagsins um það hvernig þessari atvinnugrein á að vera fyrir komið.“
Svandís sagði að meta þyrfti árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum. „Við þurfum að kanna hvort það fyrirkomulag, sem var reyndar komið á laggirnar í tíð Vinstri grænna í sjávarútvegsráðuneytinu, hafi sannarlega stutt atvinnulíf á landsbyggðinni.“
Skiptir máli að fá skoðun ráðherrans
Þorgerður Katrín kom í pontu í annað sinn og sagði að það skipti engu máli hversu lengi ráðherra væri í ríkisstjórn, hann hefði alltaf skoðun á málinu. „Og það skiptir máli að við fáum að heyra hverjar skoðanir hæstvirts ráðherra eru á þessu.“
Hún sagði að henni sýndist á öllu að það væri að einhverju leyti um sýndarmennska að ræða til að halda ríkisstjórninni saman því að fyrirstaðan til réttlátra breytinga væru þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn með VG, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.
„Við sáum þetta síðast þegar auðlindaákvæði stjórnarskrár á síðasta kjörtímabili var rætt. Þegar við ræddum fyrirkomulag veiðigjalda, það mátti engu breyta. Kerfi frekar gert flókið og lítt gegnsætt. Og síðan náttúrulega dæmalausan feluleik stjórnarinnar varðandi skýrsluna góðu um eignatengsl útgerðarinnar í íslensku atvinnulífi. Þannig að ég segi nú bara: Hvernig væri nú að setja þjóðina í fyrsta sæti þegar við komum að því að skoða breytingar á sjávarútvegskerfinu.“
Greinir á um ágæti markaðslausna
Svandís svaraði í annað sinn og sagði að hún hefði aldrei sérstaklega verið þeirrar skoðunar að markaðurinn væri leiðin til að leysa allan vanda.
„Og þar greinir okkur sennilega á, mig og háttvirtan þingmann sem kemur kirfilega úr hægrinu í íslenskum stjórnmálum og telur að markaðslausnir séu yfirleitt rétta leiðin vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höfum fyrst og fremst að leiðarljósi heildarhagsmuni samfélagsins og þá ekki bara byggðanna í landinu heldur ekki síður umhverfissjónarmiðin. Sjálfbær nýting auðlindanna og hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi að því er varðar hafið, hvort sem þar eru umhverfissjónarmiðin, nýtingarsjónarmiðin eða utanríkissjónarmiðin. Þetta eru mjög mikilvægir þættir og verða undirstaða minna ákvarðana í þessu ráðuneyti og ég treysti því að háttvirtur þingmaður og formaður Viðreisnar, að mér fylgi góðar óskir frá henni í því verkefni.“