Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra ræddu sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
„Ekki er furða að þátttaka í útboðinu hafi verið afbragðsgóð, enda verið að gefa hluta af arðbærri eign. Fjárfestar fengu eign almennings að gjöf og það er ekkert annað en bankagjöf að selja hluti bankans á undirverði sem kaupendur seldu svo á rúmlega fullu verði örfáum dögum síðar,“ sagði Oddný. Ráðherrann sagði að í umræðunni sæist í „vinstri vanga“ Samfylkingarinnar.
Þingmaðurinn hóf mál sitt á þingi í dag með því að segja að salan á 35 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka hefði verið gagnrýnd harðlega. Ríkisstjórnin hefði með sölunni boðið ríkustu Íslendingunum og erlendum fjárfestingarsjóðum til veislu á kostnað almennings.
„Arfavitlaus“ fjármálastjórn að selja banka á undirverði
Oddný sagði enn fremur að fjármála- og efnahagsráðherra hefði ákveðið að selja banka á undirverði, banka sem gefið hefði milljarða í ríkissjóð undanfarin ár og styrkt þannig velferðarsamfélagið. „Það er arfavitlaus fjármálastjórn að selja banka á undirverði til að greiða niður skuldir á lágum vöxtum. Í eigendastefnu ríkisins segir um sölu banka að gæta þurfi að langtímahagsmunum ríkissjóðs og stuðla eigi að heilbrigðu eignarhaldi til lengri tíma.“
Spurði hún hvort ekki væri augljóst að fjármálaráðherra hefði mistekist að laða að bankanum heppilega bakhjarla með áhuga fyrir langtímabankarekstri og þjónustu við íslenska viðskiptavini, sterka bakhjarla sem kynnu bankarekstur líkt og lagt væri til í hvítbók sem ríkisstjórnin sjálf hefði látið gera sem undanfara sölunnar.
Vísaði hún í grein Ásgeirs Brynjars Torfasonar, doktors í fjármálum, sem birtist í Vísbendingu í síðustu viku þar sem hann spurði hver hagur íslenskra viðskiptavina bankanna, lífeyrissjóðanna eða íslenska fjármálamarkaðarins væri yfir höfuð af því að þjóðarsjóður Abú Dabí eða konungsríki Sádi-Arabíu gæti komið hingað til lands og náð 20 til 25 prósenta ávöxtun á einni viku. „Getur hæstvirtur ráðherra svarað því? Og gróðinn er allur á kostnað almennings vegna ákvörðunar hæstvirts ráðherra og ríkisstjórnarinnar að selja banka á undirverði.“
Hafa beitt markaðinum til þess að fá endanlegt verð
Bjarni svaraði og sagði að menn kepptust nú við að útskýra fyrir þeim að „við höfum selt banka á of lágu verði sem sögðu að ekki væri hægt að selja bankann vegna þess að ekki myndi fást nægilega hátt verð. Þetta er fólkið sem allt lagðist gegn því af þeim ástæðum að aðstæður byðu ekki upp á það. En við héldum okkar striki og sýndum fram á að eftirspurnin var næg og hún var mikil og við náðum okkar helstu markmiðum með því að fá hlutabréf í Íslandsbanka skráð.“
Vildi hann minna á að ríkisstjórn sem hann átti aðild að hefði á sínum tíma tekið Íslandsbanka af kröfuhöfunum án endurgjalds. „Nú vitum við hvers virði eignarhluti ríkisins er sem ekki var seldur. Við höfum beitt markaðinum til þess að fá endanlegt verð á þann hlut og það kemur í ljós að við höfum líklega verið að vanmeta þessa eign okkar þrátt fyrir að við höfum núna selt á markaði yfir bókfærðu verði ríkisins.“
Bjarni vildi einnig vekja athygli á því að með sölunni hefði ríkið einungis selt um það bil 12,5 prósent af eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum „en fyrir söluna vorum við langstærsti eigandi að fjármálafyrirtækjum í Evrópu. Þeir eru til sem vilja ekki sjá fjármálafyrirtæki nema í eigu ríkisins, nú eða í eigu lífeyrissjóða. En ég er þeirrar skoðunar að almenn þátttaka fólksins í landinu, í gegnum skráningu, Kauphöllina, sé af hinu góða.“
Sagði hann það vera alrangt sem Oddný sagði að það hefði verið forgangsraðað í þágu þeirra sem mesta fjármuni hafa. „Þvert á móti, eina fólkið sem ekki var skert var fólkið sem bauðst að kaupa fyrir 50.000 krónur eða allt upp í 1 milljón af sparnaði sínum með þessum hætti. Það var því forgangsraðað í þágu þeirra sem minnst höfðu fram að bjóða í þessu útboði, sem fór afskaplega vel, og ríkið stendur miklu betur á eftir.“
Ekkert annað en bankagjöf
Oddný spurði í annað sinn og sagði að það hlytu að vera töluverð vonbrigði fyrir Bjarna að þeir sem gagnrýndu söluáformin og nú söluna hefðu í raun haft rétt fyrir sér allan tímann.
„En nei, svo er ekki. Hann er hæstánægður. Ekki er furða að þátttaka í útboðinu hafi verið afbragðsgóð, enda verið að gefa hluta af arðbærri eign. Fjárfestar fengu eign almennings að gjöf og það er ekkert annað en bankagjöf að selja hluti bankans á undirverði sem kaupendur seldu svo á rúmlega fullu verði örfáum dögum síðar.
Blasir ekki við að nýir eigendur, hverjir sem þeir nú eru eða verða, geri hærri ávöxtunarkröfu og að viðskiptavinir bankans, sem flestir höfðu ekki ráð á því að taka þátt í útboðinu því það er ekki svo að allur almenningur eigi milljón til að skella á borðið til að kaupa sér hlut á afsláttarverði í banka, þurfi að greiða fyrir arðsemiskröfu nýrra eigenda með hærri vöxtum og þjónustugjöldum til bankans?“ spurði hún.
„Fólkið sem vill ekki selja banka á bara að segja það hreint út“
Bjarni greip þessi orð þingmannsins á lofti og sagði að þarna sæist í „vinstri vangann á Samfylkingunni. Vangann sem trúir því ekki að fjármálafyrirtæki geti yfir höfuð verið í einkaeigu, þ.e. á almennum markaði. Samfylkingin sem trúir því eingöngu að ríkið eigi að fara með slíka hluti og eigi að beita eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum til að gefa fólki góð kjör. Væntanlega að fara í einhvers konar núllrekstur.
Það var nákvæmlega þessi hugmyndafræði sem hefði mátt koma fram fyrir söluna. Ekki koma hingað eftir söluna og tala um að verðið hafi ekki verið nógu hátt. Þið eruð ekkert að tala um það. Þið eruð að tala um það að þið viljið einfaldlega ekki að svona hlutir séu markaðssettir, jafnvel þótt þið hafið á sínum tíma setið í ríkisstjórn og boðað 30 prósenta sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Fólkið sem vill ekki selja banka á bara að segja það hreint út. Aðferðafræðin sem notuð var í þessu dæmi, þessu máli, sölunni á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, var teiknuð upp í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar. Lögin um Bankasýsluna, aðferðafræðin sem beitt var – nákvæmlega forskrift Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn.“