Vaxtalækkanir Seðlabankans í byrjun faraldursins í fyrra voru ekki nema að hluta til viðbrögð vegna breyttra efnahagsaðstæðna, heldur fólu þær í sér stefnubreytingu að hálfu bankans. Þetta skrifar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í nýrri greiningu sinni sem Kjarninn hefur undir höndum, en hún kemur út í vikunni.
Samkvæmt greiningunni má búast við vaxandi verðbólgu og að neysluverð hækki um 4-5 prósent út þetta ár. Stofnunin sagði enn fremur að engin merki séu um að almennt verðlag hækki minna á komandi ári og býst við að verðhækkanirnar á húsnæðismarkaðnum verði yfir almennri verðbólgu.
Aftur á móti býst stofnunin við að atvinnuleysi verði lágt og haldist á bilinu 3-5 prósent næstu misseri. Að mati hennar er atvinnuleysi, sem mældist 4,1 prósent í júlí, komið niður á náttúrulegt stig og mun haldast þar út árið.
Hagfræðistofnun byggir spá sína á þeim væntingum að meginvextir Seðlabankans fari hækkandi á næstu mánuðum, en verði þó lægri en þeir voru þegar faraldurinn skall á. Gert er ráð fyrir að þeir nái tveimur prósentum í apríl á næsta ári.
Merkileg tilraun
Að mati stofnunarinnar var ákvörðun Seðlabankans um að lækka vexti um 1,75 prósent á einu ári merkileg tilraun: „Sú vaxtalækkun var ekki viðbrögð við breyttum efnahagsaðstæðum, nema þá að hluta, heldur fólst í henni stefnubreyting af hálfu bankans. Vextir færðust í átt það því sem gerðist í flestum grannlöndum Íslands. Þetta er merkileg tilraun og enn er alveg óvíst hvort hún heppnast.“
Í greiningunni stendur einnig að nýleg vaxtahækkun hafi mætt mótstöðu víða á vinnumarkaðnum, til að mynda hafi Samtök atvinnulífsins sagt að ekki sé ljóst hvaða starfsemi Seðlabankinn sé að kæla með því að hækka vexti. Þá bendir stofnunin á nokkur dæmi, líkt og ummæli formanns Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu að mannekla væri helsta ástæða þess að hægt gengi að opna hótel í miðborg Reykjavíkur að nýju, sem sýna að aukinnar spennu gætti í hagkerfinu.