Transatlantic Lines LCC, sem er stofnað af og að hluta til í eigu Íslendings, hefur séð um all fraktflutninga til herstöðvar Bandaríkjahers í Guantanamo-flóa. Samningar félagsins við Bandaríkin frá síðustu aldarmótun eru metnir á 184 milljónir dala, um 24 milljarða króna. Grapevine greinir frá þessu á heimasíðu sinni.
Þar segir að Grapevine hafi haft samband við Íslendinginn, Guðmund Kjærnested, áður en að greinin var birt en hann vildi ekki tjá sig um hana. Guðmundur er varaforseti Transatlantic Lines LCC og stofnaði fyrirtækið árið 1998 í Conneticut í Bandaríkjunum.
Fangabúðir hafa verið reknar við Guantanamo-flóa frá árinu 2002. Tilgangur þeirra hefur verið að einangra og yfirheyra meinta hryðjuverkamenn sem tengjast Al Kaída, Talíbönum eða öðrum hermdarverkasamtökum. Þeir sem haldið hefur verið í búðunum hafa verið skilgreindir af bandarískum yfirvöldum sem óvinveittir bardamenn og hafa ekki notið þeirrar réttarstöðu sem Genfarsáttmálinn og bandarísk lög tryggja annars mönnum í haldi. Þegar mest var voru mörg hundruð manns í haldi í búðunum. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir vilja til að loka búðunum en það hefur ekki gengið eftir. Í desember síðastliðnum voru enn 127 fangar í haldi í búðunum.