Skýrar vísbendingar eru um að skattasniðganga í formi svokallaðs tekjutilflutnings viðgangist hér á landi. Þetta skrifa Arnaldur Sölvi Kristjánsson og Róbert Farestveit, hagfræðingar hjá ASÍ í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út síðasta föstudag.
Samkvæmt Arnaldi Sölva og Róberti á tekjutilflutningurinn, sem felur í sér að fólk skrái launatekjur sínar ranglega sem fjármagnstekjur, sér aðallega stað á meðal atvinnurekenda með háar tekjur. Þeir telja að reglur sem takmörkuðu slíkan tilflutning myndu auka árlegar skatttekjur um allt að átta milljarða króna, styrkja tekjuöflun sveitarfélaga og auka skattbyrði þeirra sem eru tekjuhærri.
Höfundarnir segja þessa tegund sniðgöngu vera tilkomna þar sem fjármagnstekjuskattur er lægri en skattur á atvinnutekjur. Við það geta einstaklingar sem eru í eigin rekstri vantalið eigið vinnuframlag til þess að hámarka hlutfallið af tekjum þeirra sem verða skattaðar sem fjármagnstekjur.
Máli sínu til stuðnings vísa Arnaldur Sölvi og Róbert til skýrslu sérfræðingahóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá árinu 2017, en þar kom fram að meðallaun frá félögum til eigenda voru 620 þúsund krónur á mánuði, á meðan greiddur arður hafi að meðaltali verið 770 þúsund krónur á mánuði.
Hluthafalíkan gæti komið í veg fyrir sniðgöngu
Samkvæmt höfundunum er ein möguleg leið til að koma í veg fyrir slíkan tekjutilflutning að taka upp svokallað hluthafalíkan, sem Norðmenn tóku upp árið 2006, en það myndi fela í sér að skattar á arð og söluhagnað yrðu hækkaðir þannig að virkt skatthlutfall sé jafnt hæsta skatthlutfalli launa.
Upptaka slíks kerfis myndi fyrst og fremst auka skatta hjá þeim tekjuhærri, segja Arnaldur Sölvi og Róbert, þar sem þeir séu með mun hærri arðsemi en aðrir. Önnur möguleg leið er þrepaskipt skattkerfi á fjármagnstekjur, en auk þess væri einfaldlega hægt að hækka fjármagnstekjuskattinn eins og hann er núna.