Tillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um að taka af dagskrá þingfundar frumvarp um alþjóðlega vernd og fresta fram yfir áramót, var felld við upphaf þingfundar í dag með 30 atkvæðum gegn 21.
Andrés Ingi sagði það óábyrgt af meirihlutanum að ætla að tefla í tvísýnu fjölda mála sem liggja fyrir þingi með því að setja útlendingafrumvarpið á dagskrá. Með því sé verið að fresta öðrum brýnari málum, líkt og almannatryggingum og eingreiðslu til öryrkja.
„Það er verið að setja það hérna fremst á dagskrá á eftir fjárlögum, störfum þingsins, fram yfir eingreiðslu almannatrygginga, einfaldlega af því að við munum vera hérna til að tala um það hvernig ríkisstjórnin er að brjóta á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks. Þangað til það verður lagað, mjög einfaldlega, þá verðum við náttúrlega sökuð um málþóf til að koma í veg fyrir eingreiðslu öryrkja. Þetta er bara fáránlegt,“ sagði Björn Leví.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, tók í sama streng. „Þetta eru mál sem þurfa að klárast, þetta eru mál sem ættu að vera fyrst á dagskrá. Í staðinn er sett mál sem er vitað að ef það kemur á dagskrá verður það rætt endalaust.“
Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra er komið úr nefnd, nánast óbreytt, og er þriðja mál á dagskrá þingfundar dagsins. Stjórnarflokkarnir leggja til bráðabirgðabreytingu um að nokkur hópur fólks með börn, sem ekki var hægt að senda úr landi vegna veirufaraldursins, fái dvalarleyfi hérlendis.
Ekki fullbúið til umræðu í þingsal
Þingmenn Pírata sögðu frumvarpið ekki tilbúið til umræðu í þingsal, til að mynda eigi eftir að taka fyrir beiðnir varðandi nánari greiningu á þeim áhrifum sem frumvarpið hefur á stjórnarskrárbundin réttindi og réttindi sem varin eru með mannréttindasáttmálum sem Íslandi er aðili að, líkt og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, benti á.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar sem afgreiddi frumvarpið úr nefndinni, sagðist ekki telja neina ástæðu til að taka málið af dagskrá þingfunar. Hún sagði verulega umræðu nú þegar hafa farið fram þar sem þetta er í fimmta sinn sem frumvarp til breytinga á útlendingalögum er lögð fram. Sagði hún málið fullunnið af hálfu nefndarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málið ekki vera fullunnið en að frumvarpið yrði samþykkt af meirihlutanum sem mun hafa í för með sér skerðingu á réttindum fólks á flótta.
„Þetta er svo ógeðfellt“
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði meirihlutann vera að beita fyrir sig framgangi kjarabóta til öryrkja til að drepa umræðu um útlendingamál. „Þetta mun tefja gríðarlega mikilvæg mál sem allir eru sammála um hér í þessum þingsal og það er augljóst hver tilgangurinn er,“ sagði Arndís Anna.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að Tryggingastofnun geti ekki afgreitt eingreiðslu til öryrkja fyrr en fjáraukalög og frumvarp velferðarnefndar verði samþykkt. „Það er raunveruleg neyð hjá fólki, en einhverra hluta vegna þá finnst stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi meira aðkallandi að skerða réttindi útlendinga en að afgreiða þessi mál sem er alger samstaða um hérna í þingsal. Þetta er svo ógeðfellt,“ sagði Jóhann Páll.