„Er stefna stjórnvalda að þurrka út villtan lax á Íslandi og þar með hlunnindi og ferðaþjónustu í laxveiðiám fyrir ofsagróða norskra sjókvíaeldisfyrirtækja? Af hverju eru íslensk stjórnvöld að gefa erlendum stórfyrirtækjum auðlindir okkar?“ Þannig spyr fjöldi samtaka og fyrirtækja sem skora á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verði um seinan. Kallað er eftir „trúverðugri áætlun sem miðar að því að banna alfarið laxeldi í sjókvíum hér við land“.
Nýverið lagði Matvælastofnun 120 milljóna króna stjórnvaldssekt á sjókvíaeldisfyrirtækið Arnarlax er upp komst að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir örlögum yfir 80 þúsund laxa sem sleppt hafði verið í kví fyrirtækisins í Arnarfirði. Ljóst þykir að þeir hafi sloppið út í náttúruna. Sakar MAST Arnarlax um að hafa brotið gegn skyldu til að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á honum.
Við slátrun úr sjókví 11 við Haganes í Arnarfirði í október varð ljóst að fyrirtækið gat ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa hið minnsta.
Alls hafði 132.976 löxum verið komið fyrir í kvínni í október 2020 og júlí 2021. Skráð afföll voru 33.097 fiskar en nú í október, þegar slátrun var lokið úr kvínni, reyndist fjöldinn sem kom upp úr kvínni hins vegar vera aðeins 18.315 laxar.
Hófst þá rannsókn MAST sem leiddi í ljós misræmi í fóðurgjöf miðað við uppgefinn fjölda fiska í kvínni. Veruleg frávik höfðu orðið í fóðurgjöf í umræddri kví frá því í júní í fyrra „sem hefði átt að vekja sterkar grunsemdir fyrirtækisins um að eitthvað alvarlegt væri á seyði,“ sagði í tilkynningu MAST um málið.
Í ágúst í fyrra var tilkynnt um gat á umræddri kví og þá sagt að það hefði ekki verið á henni við eftirlit um mánuði fyrr.
Arnarlax svarar fyrir sig
Forsvarsmenn Arnarlax svöruðu þessari ákvörðun MAST með því að tilkynna að þeir hyggðust kæra hana á þeim forsendum að „öllum viðbragðsferlum fyrirtækisins, sem og lögum og reglum, hafi verið fylgt til hins ítrasta“. Í tilkynningu sögðu forsvarsmennirnir að þeim þætti „mjög miður“ að lax hefði sloppið og að fyrirtækið muni draga lærdóm af „þessu óhappi“.
Samtökin og fyrirtækin sem sent hafa stjórnvöldum áskorun vegna slyssins benda á að villti laxastofninn á Íslandi telji um 50 þúsund laxa. Slysasleppingin, þar sem um 80 þúsund frjórir norskir eldislaxar hafi sloppið út í náttúruna, sé „grafalvarlegt umhverfisslys“ sem muni hafa „alvarleg erfðafræðileg áhrif“ á villta laxastofna á Íslandi. Slysasleppingin sé enn fremur staðfesting þess „að fögur fyrirheit fyrirtækja í sjókvíaeldi eru fölsk og opinberar hún einnig skeytingarleysi fyrirtækisins gagnvart hagsmunum náttúrunnar þegar ákveðið er að mótmæla sektargreiðslunni“.
Samtökin benda á að erfðamengun villtra stofna í kjölfar slysasleppinga er óafturkræft umhverfisslys. Ekki standi villtum laxastofnum þó aðeins ógn af sjókvíaeldi því iðnaðurinn skilji einnig eftir sig mengun á hafsbotni. Þá stafi öðrum villtum stofnum ógn af lúsafári og sjúkdómum. Ennfremur sé ímynd óspilltrar náttúru Íslands í hættu.
Orðspor Íslands svert
Á Íslandi eru rúmlega 2.250 lögbýli sem treysta á tekjur frá laxveiðiám og skapar laxveiðin margfalt fleiri störf en sjókvíaeldi mun nokkurn tíma gera, segir í áskorun samtakanna og fyrirtækjanna. Efnahagslegt virði lax- og silungsveiða nemi 13,5 milljörðum króna árlega. „Slysasleppingar sem þessi rýra verðmæti þeirra náttúrulegu auðlinda sem fjölskyldur á landsbyggðinni treysta á.“ Orðspor Íslands sem upprunalands hreinleika sé einnig svert. „Ætla stjórnvöld að gera sömu mistök og aðrar þjóðir sem ala frjóan og framandi lax í opnum sjókvíum?“
Skorað er á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verði um seinan. „Það er ljóst að ef stjórnvöld hafa raunverulegan áhuga á að vernda villta laxastofna og náttúru Íslands, þá þarf að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum.“ Á meðan verið sé að stunda sjókvíaeldi á Íslandi þurfi að gera það eftir allra ströngustu stöðlum og er bent á svonefnda NASCO-staðla í því samhengi. Skorað er á matvælaráðherra að innleiða þessa staðla og „gefa engan afslátt af þeim á meðan verið er að stunda þessa mengandi starfsemi í fjörðum landsins“.
Einnig er skorað á ferðamálaráðherra að vernda þau 2.250 lögbýli sem treysta á laxveiðihlunnindi sem séu auk þess „ómetanlegur partur af ferðaþjónustu landsins“.
Samtökin og fyrirtækin sem skrifa undir áskorunina eru:
NASF á Íslandi, Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Laxinn Lifi, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir Umhverfissinnar, Lax-á, Veiðiflugur, Veiðivön, Höklar, Six Rivers Project, Stóra-Laxá, Fuss, Laxá á Ásum, Starir, Miðfjarðará, Eleven Experience, Norðurá, Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR), Hreggnasi, Vatnsdalsá, Veiðifélagið, Fish Partner og Flugubúllan.