Skortur gæti orðið á vinnuafli og störfum á Norðurlöndunum í framtíðinni, auk þess sem meiri hæfniskröfur og vaxandi hópur starfsmanna með lélega vinnuvernd gæti aukið verulega ójöfnuð þar. Þetta er mat Kristin Alsos og Jon Erik Dølvik, sem starfa hjá norsku rannsóknarstofnunni Fafo, auk Katrínar Ólafsdóttur, hagfræðidósents við HR.
Í grein sem Katrín, Kristin og Jon Erik skrifuðu í nýjasta tölublaði Vísbendingar segja þau að atvinnulífið á Norðurlöndunum þurfi að kljást við stórar áskoranir sem tæknibreytingar, alþjóðavæðing og loftslagsváin hefur búið til.
Samkvæmt höfundunum eru áskoranirnar fjórþættar. Í fyrsta lagi er það skortur á vinnuafli vegna hærra hlutfalls aldraðra í samfélaginu. Í öðru lagi er svo mögulegur skortur á ýmsum þjónustustörfum yfirvofandi, haldi kaupmáttur ekki áfram að aukast umfram kostnaðinn við þjónustuna.
Í þriðja lagi hefur svo störfum með litlar og miðlungs hæfniskröfur fækkað, á meðan störfum með auknar hæfniskröfur hefur fjölgað. Í fjórða og síðasta lagi virðist sá hópur launþega sem starfar við lélega vinnuvernd hafa stækkað, mögulega vegna nýrra ráðningarforma og aukinnar alþjóðavæðingar vinnumarkaðarins.
„Ef stjórnmálamenn og -flokkar grípa ekki inn í með afgerandi hætti eigum við á hættu að samheldni í norrænu atvinnulífi sundrist og æ fleiri lendi á jaðri vinnumarkaðar,“ segja Katrín, Kristin og Jon Erik í greininni. Samkvæmt þeim hefur kórónukreppan aukið þessa áhættu enn frekar.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.