Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarpsdrög í samráðsgátt stjórnvalda sem heimila afurðarstöðvum í sláturiðnaði að komast undan ákvæðum um bann við ólögmætu samráði.
Félag atvinnurekenda er verulega ósátt með áformin og í umsögn bendir það á að mörg fyrirtæki í sláturiðnaði skili miklum hagnaði. Svo miklum að þau eigi í hálfgerðum vandræðum með að eyða honum. Eitt þeirra, Kaupfélag Skagfirðinga (KS), hafi til að mynda nýverið ráðstafað hluta hagnaðar síns í að kaupa stóra skyndibitakeðju í Reykjavík.
Byggir að hluta til á tillögum spretthóps Steingríms
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að ákvæði verði bætt við búvörulög til bráðabirgða sem undanskilji afurðastöðvar í sláturiðnaði frá ákvæðum samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði. Það sé gert til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Afurðastöðvunum verði heimilt, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að stofna og starfrækja félag um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða auk skyldra verkefna. Ákvæðið á að gilda til 2026.
Frumvarpið byggir að hluta á tillögum spretthóps, sem Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi formaður Vinstri grænna leiddi, og skilaði af sér tillögum í sumar. Hópurinn var skipaður vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi sökum þess að verð á aðföngum til bænda hafði hækkað gríðarlega eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Ljóst sé að mörg fyrirtækin séu í prýðilegum rekstri
Ein umsögn hefur borist um frumvarpsdrögin, frá Félagi atvinnurekenda. Þar segir að sú erfiða staða afurðastöðva í sláturiðnaði sem dregin sé upp í greinargerð frumvarpsdraganna eigi klárlega ekki við um öll fyrirtæki sem talin séu upp sem sláturleyfishafar. Ljóst sé að mörg þeirra séu í prýðilegum rekstri. „Afkoma Kaupfélags Skagfirðinga (KS) hefur þannig verið ljómandi góð. Félagið hefur hagnazt um 18,3 milljarða króna á síðustu fjórum árum, þar af 5,4 milljarða í fyrra. Stjórnendur félagsins hafa verið í hálfgerðum vandræðum með hagnaðinn, eins og sjá má á því að þeir hafa m.a. fjárfest hann í skyndibitakeðjum í Reykjavík.“ Er þar vísað í kaup KS á Gleðipinnum, sem reka hamborgarastaðina American Style, Aktu Taktu og Hamborgarafabrikkuna, pizzastaðina Shake & Pizza og Blackbox auk Saffran, Pítunnar og Keiluhallarinnar. Auk þess reka Gleðipinnar trampólíngarðinn Rush. Áður hafði KS keypt hamborgarastaðinn Metro.
Þá bendir Félag atvinnurekenda á að hagnaður Stjörnugríss hafi verið 325 milljónir króna á síðasta ári, eða 68 prósent meiri en árið 2020. „Hagnaður Sláturfélags Suðurlands á síðasta ári var 232 milljónir króna og í ársreikningi vitnað til betri markaðsaðstæðna og sterkari stöðu.“
Það furðar sig á að hvergi í greinargerð frumvarpsdraganna sé minnst einu orði á nýlegt dæmi um samruna kjötafurðastöðva sem samkeppnisyfirvöld heimiluðu. Þar er vísað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þegar það heimilaði samruna kjötafurðastöðvanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða með skilyrðum, sem tryggja eiga hag bæði bænda og neytenda. „Möguleikar til hagræðingar á þessum markaði, innan ramma núgildandi samkeppnis- og búvörulöggjafar, eru því augljóslega fyrir hendi.“
Að mati Félags atvinnurekenda hafi höfundar frumvarpsdraganna reynt að skrifa inn í bráðabirgðaákvæðið um hina tímabundnu undanþágu frá samkeppnislögum sum af þeim skilyrðum, sem sett voru fyrir samruna kjötafurðastöðvanna nyrðra, til að bæta áferð málsins. „Það breytir ekki þeirri staðreynd að yrðu frumvarpsdrögin að lögum gætu samkeppnisyfirvöld ekki haft eftirlit með því samstarfi sem undanþágan myndi heimila og sett því skilyrði til að gæta hagsmuna neytenda og keppinauta. FA sér enga ástæðu til að undanþiggja samstarf á þessum markaði slíku eftirliti, sem fyrirtæki á öðrum mörkuðum mega og eiga að sæta.“