Búast má við að bæði tekju- og eignaójöfnuður aukist vegna kreppunnar sem fylgdi heimsfaraldrinum, þar sem tekjulægri voru líklegri til að missa vinnuna sína og lágir vextir hafa stutt við hraðar verðhækkanir á fasteignamarkaði. Slík aukning ójöfnuðar er gegn vilja íslensku þjóðarinnar, samkvæmt skoðanakönnunum.
Þetta kemur fram í fimmtu skýrslu sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins, sem birt var í dag. Þar beinir hópurinn, sem er leiddur af Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ, sérstaklega sjónum sínum að áhrifum faraldursins á ójöfnuð hér á landi.
Flestir Íslendingar telja ójöfnuð vera of mikinn
Hópurinn vitnar í könnun á viðhorfum til ójöfnuðar sem framkvæmd var hér á landi, en hún var liður í aljþjóðlegu rannókninni International Social Survey Programme. Samvkæmt henni voru um 82 prósent Íslendinga sammála því að launamunur hafi verið of mikill í fyrra. Innan við 7 prósent aðspurðra voru aftur á móti ósammála þeirri staðhæfingu.
Einnig sagði meirihluti aðspurðra að það væri á ábyrgð stjórnvalda að draga úr launamun og töldu flestir þeirra að stjórnvöld hefðu ekki náð miklum árangri í þeim efnum hingað til.
Samkvæmt hópnum sýna rannóknir því að meirihluti Íslendinga telji launaójöfnuð vera of mikinn hér á landi og að þjóðin vilji ekki að ójöfnuður aukist.
Ójöfnuður í tekjum og eignum
Í skýrslunni er einnig farið yfir þróun tekjuójöfnuðar, en hann hefur haldist nokkuð stöðugur á árunum 2010-2019, eftir að hafa aukist hratt á síðustu árunum fyrir hrun og svo fallið í kjölfar hrunsins. Samkvæmt skýrsluhöfundum er líklegt að ójöfnuður hafi svo aukist aftur á undanförnum mánuðum, þar sem tekjulágir séu almennt líklegri til að missa störf sín og að fyrirliggjandi upplýsingar bendi til þess að yfirstandandi kreppa sé engin undantekning á því.
Til viðbótar við ójöfnuð í tekjum bætir hópurinn við að eignaójöfnuður sé líklegur til að hafa aukist, þar sem verð hlutabréfa og fasteigna hefur aukist töluvert. Með hærra eignaverði eykst aðstöðumunurinn á milli eignafólks og þeirra sem hafa minni skráðar eignir. Niðurstaðan af þessari þróun í tekju- og eignaójöfnuði er aukið misræmi í afkomu ólíkra samfélagshópa, samkvæmt skýrsluhöfundum.