Á hverjum einasta degi árið um kring borga Danir að minnsta kosti sex milljónir króna (120 milljónir íslenskra króna) í sektir. Stöðumælasektir, hraðaksturssektir, vanskilasektir á bókasafninu, sektir fyrir að mæta ekki í læknisskoðun á réttum tíma og svo framvegis og svo framvegis. Tekjur danska ríkisins, og sveitarfélaganna af sektum, hafa stóraukist á síðustu árum þótt yfirlýstur tilgangur með innheimtu þeirra sé ekki tekjuöflun.
Frá árinu 2009 hefur upphæðin sem danskur almenningur borgar í sektir af öllu mögulegu tagi rúmlega tvöfaldast og margfaldast sé litið lengra til baka. Í fyrra nam upphæð sektanna samtals um það bil 2.2 milljörðum króna, tæpum 44 milljörðum íslenskum. Ástæðurnar fyrir þessari miklu aukningu á síðustu árum eru einkum þær að sektarupphæðir hafa hækkað verulega og ekki síður að í dag eiga borgararnir að greiða fyrir ýmislegt sem ekki tíðkaðist áður að innheimta sérstakt gjald fyrir. Og ef ekki er greitt á réttum tíma kemur sekt.
Fyrir hvað er sektað
Kannski væri réttara að snúa þessari spurningu við og spyrja fyrir hvað er ekki sektað skrifaði danskur blaðamaður fyrir nokkrum dögum í grein í dagblaðinu Berlingske og fullyrti jafnframt að Danir búi í sannkölluðu sektasamfélagi. Ef bíl er lagt ólöglega er sektað, ef tíminn í stöðumælinum er útrunninn eða bíleigandi hefur ekki borgað í stöðumælinn er sektað, ef ófatlaður leggur í stæði merkt fötluðum má búast við sekt, hraðakstur varðar sektum, ef bókum er ekki skilað á réttum tíma á bókasafnið fær lánþeginn sekt. Ef komið er fram yfir þann tíma sem mæta á með bílinn í skoðun er sektað og eigi maður tíma á sjúkrahúsi í skoðun eða viðtal og lætur ekki sjá sig er sektað.
Sé maður staðinn að því að fleygja frá sér sígarettustubbi á almannafæri má búast við sekt og sá sem léttir á sér í húsasundi eða dimmu skoti fær sekt ef laganna verðir standa hann að verki. Fjölmargt fleira mætti nefna. Nýjasti og mest umtalaði sektarvaldurinn um þessar mundir er hið svonefnda Ferðakort, Rejsekortet. Þetta kort er fyrirframgreitt fargjaldakort og þegar lagt er af stað, með lest eða strætó, skal „stimpla sig inn“ og aftur út þegar komið er á leiðarenda. Fargjaldið dregst þá frá inneigninni. Sá sem ekki stimplar inn í upphafi ferðar fær sekt fyrir að reyna að ferðast ókeypis en ef farþeginn gleymir að stimpla sig út í lok ferðar fær hann sekt. Það er þetta síðarnefnda sem margir gleyma og þá er refsað með sekt. Vegna fjölmennra og háværra mótmæla voru sektir fyrir „útstimplunargleymsku“ lækkaðar en vegna fjölda þeirra er um að ræða umtalsverðar upphæðir.
Ekki eru allir sáttir við að fá sekt og á síðasta ári fékk til dæmis Kaupmannahafnarborg um það bil 23 þúsund kvartanir eingöngu vegna sekta frá ósáttum bíleigendum.
Hvert renna sektargreiðslurnar
Í stuttu máli sagt renna sektargreiðslurnar í ríkissjóð og til sveitarfélaganna. Um meðferð slíks fjár gilda tilteknar, og strangar, reglur. Sama gildir um þær sektir sem fyrirtæki sem annast rekstur bílastæða innheimta, hluti þeirra rennur til ríkisins.
Fyrir nokkrum mánuðum hringdi verslunareigandi í Kaupmannahöfn í lögregluna og tilkynnti um innbrot. Honum var sagt að lögreglan hefði ekki mannskap né tíma til að sinna þessari tilkynningu. Á sama tíma voru tveir lögregluþjónar, hinum megin við götuna, beint á móti búðinni, önnum kafnir við að stöðva hjólreiðamenn og deila út sektum fyrir að virða ekki reglur um hámarkshraða og fleira.
Verslunareigandinn tók mynd af lögregluþjónunum og skrifaði einu dagblaðanna, sem birti bréf hans. Yfirmaður í lögreglunni vildi engu svara þegar blaðamaður bar málið undir hann, kvaðst ekki þekkja málavöxtu.
Hver er tilgangurinn með sektum?
Þessa spurningu bar blaðamaður Berlingske upp við áðurnefndan yfirlögregluþjón og sömuleiðis nokkra þingmenn. Svörin voru öll á þá leið að sektir væru til þess gerðar að bæta hegðan. Þá spurði blaðamaður hvort verið gæti að peningasjónarmið skipti jafnvel meira máli í þessum efnum. Enginn vildi beinlínis fallast á það sjónarmið en einn eða tveir þingmenn nefndu að auðvitað skiptu peningarnir máli fyrir ríkiskassann.
Þótt yfirlýstur tilgangur sekta, eins og hegninga yfirleitt, sé sá að bæta hegðan og auka öryggi borgaranna er ekki þar með sagt að sú sé ætíð raunin. Jakob Torfing prófessor við Árósaháskóla telur fátt benda til að sektir breyti miklu um hegðan fólks. Margir líti á sektirnar sem tekjulind ríksins og í slíkri hugsun felist engin betrun.
Bo Sandemann Rasmussen prófessor við Árósaháskóla tekur i sama streng og segir það umhugsunarefni að nú sé í fjárlögum farið að reikna með tekjum vegna sekta. Það veki spurningar um tilgang sektanna.