Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, segir að innflutningur á sementi hafi dregist mikið saman í haust í samtali við Kjarnann. Samkvæmt honum er mikil óvissa í kortunum varðandi afhendingaráætlanir og á Sementsverksmiðjan erfitt með að standa við sínar skuldbindingar þessa stundina.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru að meðaltali flut inn um 14 þúsund tonn af Portlandssementi, sem er algengasta tegund sements, til landsins í hverjum mánuði árið 2019. Í fyrra var meðaltalið komið niður í 11 þúsund tonn á mánuði, en á fyrstu mánuðum þessa árs var meðaltalið komið upp í 13 þúsund tonn á mánuði.
Á haustmánuðum sagði Gunnar þó að það hefði farið að koma í ljós að innflutningurinn myndi dragast mikið saman, en aðspurður hver ástæðan sé að baki þessum samdrætti segir hann að það sé skortur á vörunni í allri Skandinavíu og í rauninni allri Norður-Evrópu.
„Við höfum flutt inn minna en við viljum og fáum ekki það magn sem við óskum okkur,“ bætir Gunnar við. Samkvæmt honum er það áskorun fyrir Sementsverksmiðjuna að standa við skuldbindingar sínar þessa stundina. Enn sé þó eitthvað framleitt af sementi á Norðurlöndunum, sem sé svo flutt inn til landsins, en áskorunin felst í því að ná meiru sementi til landsins.
Sementsverksmiðjan er að mestu í eigu þýska fyrirtækisins HeidelbergCement Group og sér um innflutning á sementi frá norska framleiðandanum Norcem AS.