Þremur sendingum með vörum frá Íslandi á leið til Rússlands var snúið við í dag eftir að Rússar tilkynntu um innflutningsbann á matvöru frá Íslandi. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu og vísar í fréttavefinn Undercurrent News sem sérhæfir sig í fréttum af sjávarútvegi.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu RÚV verða sendingarnar látnar bíða í öðrum höfnum þar til í ljós kemur hvers eðlis viðskiptabann Rússa er og hvert framhaldið verður.
Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðfest umfang innflutningsbannsins sem Rússar settu í dag á Ísland og fjórar aðrar Evrópuþjóðir, til viðbótar við Evrópusambandslönd, Bandaríkin og Ástralíu. Um hádegi í dag sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra að upplýsingar hefðu ekki fengist um umfang þess. Búast má við að nánari upplýsingar verði opinberaðar þegar þær liggja fyrir.
Kjarninn greindi frá því í dag að flest bendi til þess að bannið taki gildi strax og sé án undantekninga. Því sé óvíst hvort vörur sem voru á leið til Rússlands fái tollaafgreiðslu.
Rússland er stærsti uppsjávarfiskmarkaður íslenskra sjávarútflutningsfyrirtækja og áætla Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) að við eðlilegar aðstæður hefði virði útflutnings á sjávarafurðum til Rússlands numið um 37 milljörðum króna á þessu ári. Mestu munar um útflutning til Rússlands á loðnu og makríl. Áætlað virði útflutnings á þessum tveimur fisktegundum er um 23,3 milljarðar króna árið 2015, miðað við eðlilegar aðstæður.