Utanríkisráðuneytið hefur haft samband við sendiráð Íslands í Berlín og París vegna flugslyssins í Frakklandi til þess að fylgjast með því þegar hægt verður að nálgast upplýsingar um farþega og þjóðerni þeirra. Þetta staðfestir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, við Kjarnann. Enn sem komið er hefur ráðuneytið ekki neinar upplýsingar um það hvort Íslendingar voru um borð í vélinni, enda mjög skammt frá því að flugslysið varð.
Airbus A320 þota frá þýska flugfélaginu Germanwings, dótturfélagi Lufthansa, hrapaði í Meolans-Revel í morgun. Meolans-Revel er um hundrað kílómetrum frá Nice og er mjög fámennt þorp. 148 voru um borð. Francois Hollande Frakklandsforseti hefur sagt að ólíklegt sé að nokkur hafi lifað slysið af. Erfitt er að komast að slysstaðnum.
Hér má sjá staðsetningu vélarinnar þegar hún hrapaði. (Mynd: Flightradar24.com)
Sky News greinir frá því að vélin hafi farið úr 40 þúsund feta hæð niður í sex þúsund fet á innan við tíu mínútum. Klukkan 9.47 í morgun barst neyðarkall frá vélinni en hún hvarf af ratsjám mjög skömmu síðar.
Uppfært 12:05: Í neyðarkallinu frá vélinni var ekki sagt hvers eðlis vandi vélarinnar væri. Þá er búið að finna brak vélarinnar, en aðeins er hægt að komast að slysstaðnum með þyrlum. Búið er að setja upp tímabundið líkhús í nálægum skóla til að taka við líkamsleifum.