Sepp Blatter er hættur sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, fjórum dögum eftir að hann var endurkjörinn í umdeildum kosningum og í skugga spillingarmála. Frá þessu var greint frétt í þessu, eftir að boðað var óvænt til blaðamannafundar hjá FIFA.
„Hagsmunir FIFA eru mér kærir. Þess vegna hef ég tekið þessa ákvörðun. Það sem skiptir mig mestu máli er stofnunin FIFA og fótbolti um allan heim,“ sagði Blatter. Hann ætlar að boða til nýs aðalfundar þar sem þarf að kjósa nýjan formann, en það verður ekki gert fyrr en á tímabilinu milli desember á þessu ári og mars á næsta ári.
Spjótin hafa í auknum mæli beinst að Blatter undanfarna daga. Ljóst var að staða hans var orðin erfið eftir að Jerome Valce, framkvæmdastjóri FIFA og einn nánasti samstarfsmaður Blatter, var í gær nafngreindur sem sá starfsmaður FIFA sem ásakaður er um að hafa mútað Jack Warner, fyrrum varaforseta FIFA, með tíu milljónum dala. FIFA hefur neitað því að Valce hafi gert slíkt og segir að fyrrum fjármálastjóri sambandsins, Julio Grondona, hafi samþykkt greiðsluna sem sannarlega rann úr sjóðum sambandsins til Warner. Grondona er látinn og getur ekki svarað fyrir sakargiftirnar.
Langur skuggi spillingarmála
Blatter, sem er 79 ára, sigraði örugglega í kosningunum á föstudag. Hann fékk 133 atkvæði en Ali 73. Þar sem hvorugur hlaut 2/3 hluta atkvæða þurfti að boða til annarra kosninga þar sem meirihluti atkvæða dyggði til sigurs. Áður en að henni kom dró Ali framboð sitt hins vegar til baka.
Ásýnd FIFA hefur beðið mikinn skaða undanfarna daga. Á miðvikudag í síðustu viku voru margir háttsettir stjórnarmenn og stjórnendur innan sambandsins handteknir og ákærðir. Sex þeirra voru handteknir í Sviss og átta til viðbótar verða ákærðir. Bandarísk yfirvöld fara með rannsókn málsins en grunur er uppi um að einstaklingarnar sem um ræðir hafi þegið mútur upp á hið minnsta 150 milljónir Bandríkjadala, eða sem nemur um þrettán milljörðum króna, vegna undirbúnings fyrir staðaval HM í fótbolta sem haldið verður í Rússlandi 2018 og Kata 2012. Mennirnir hafa verið ákærðir fyrir múturþægni, peningaþvætti og ýmislegt fleira.
Á meðal þeirra sem einnig verða ákærðir, en voru handteknir í Sviss á miðvikudag, eru Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA frá Trinidad og Tobago, Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, og Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ. Búist er við að nokkrir stjórnendur íþróttamarkaðsfyrirtækja frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku verði líka ákærðir en þeir eru grunaðir um að hafa greitt meira en 150 milljónir dala, um 20,2 milljarða króna, í mútur og greiðslur undir borðið og fengið í staðinn arðvæna fjölmiðlasamninga í tengslum við stórar knattspyrnukeppnir á vegum FIFA. Blatter er ekki á meðal þeirra sem hafa verið handteknir og hann segist ekki vera til rannsóknar.