Eiginfjárhlutfall kerfislega mikilvægu bankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka var 24,8 prósent í lok september síðastliðins. Það hafði lækkað um 0,1 prósentustig frá síðustu áramótum þegar búið er að draga frá þá þann hluta hagnaðar fyrstu níu mánuði ársins, alls 32,5 milljarða króna, sem bankarnir ætla að greiða í arð til eigenda sinna á árinu 2022
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Seðlabanki Íslands sendi fjármálastöðugleikanefnd 3. desember síðastliðinn og hefur verið birt á vef bankans.
Þar segir að eiginfjárhlutföllin séu sex til sjö prósentustigum fyrir ofan þá lágmarks eiginfjárkröfu sem Seðlabankinn gerir. Bankarnir hafi því gott svigrúm til að mæta hækkun sveiflujöfnunaraukans í tvö prósent í september árið 2022.
Sveiflujöfnunarauki endurvakinn
Sveiflujöfnunarauki Seðlabankans eru viðbótarkröfur á eigið fé fjármálafyrirtækja umfram lögbundnar eiginfjárkröfur til að sporna gegn miklum sveiflum í fjármálakerfinu. Ef mikil hætta er á þenslu getur Seðlabankinn hækkað aukann til að koma í veg fyrir of mikinn útlánavöxt, en ef hætta er á samdrætti getur bankinn lækkað aukann til að efla útlánagetu fjármálafyrirtækjanna.
Þegar sveiflujöfnunaraukinn var afnumin í mars í fyrra var það gert til að auka þrótt efnahagslífsins til að takast á við afleiðingar kórónuveirufaraldursins með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem átti að nema allt að 350 milljörðum króna. Þorri þessa svigrúms hefur verið nýtt í að lána til húsnæðiskaupa.
Nefndin taldi ekki lengur þörf á því viðbótarsvigrúmi. Í yfirlýsingu nefndarinnar frá þeim tíma sagði að það væri mat hennar að hratt hækkandi eignaverð samhliða aukinni skuldsetningu heimila, hefði nú þegar fært sveiflutengda kerfisáhættu að minnsta kosti á sama stig og hún var fyrir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. „Nefndin hefur því ákveðið í ljósi aukinnar uppsöfnunar sveiflutengdrar kerfisáhættu að hækka sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki úr 0 prósent í 2 prósent. Ákvörðun nefndarinnar tekur gildi að 12 mánuðum liðnum í samræmi við þær reglur sem um sveiflujöfnunaraukann gilda. Sveiflujöfnunaraukinn sannaði gildi sitt í faraldrinum og hefur nefndin tekið til skoðunar hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans eigi að vera til framtíðar.“
Einn banki ætlar að skila allt að 88 milljörðum til hluthafa
Sá kerfislega mikilvægu bankanna sem hefur leitt útgreiðslur til hluthafa sinna á því tímabili sem liðið er frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á er Arion banki. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 greiddi Arion banki 25,5 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs upp á 2,9 milljarða króna með endurkaupum á eigin bréfum þeirra upp á 22,7 milljarða króna.
Bankinn hefur þegar tilkynnt að hann ætli að kaupa eigin bréf af hluthöfum fyrir tíu milljarða króna á síðustu þremur mánuðum ársins og greiða þeim 11,3 milljarða króna í arð. Það þýðir að frá byrjun árs og með þeim arð- og endurkaupagreiðslum sem hann hefur þegar ákveðið mun Arion banki skila 46,8 milljörðum króna til hluthafa sinna.
Í kynningu á markaðsdegi Arion banka, sem fór fram í nóvember, kom fram að von sé á meiru. Miðað við markmið Arion banka um hvert eiginfjárhlutfall hans ætti að vera telja stjórnendur bankans hægt að losa um 30,1 milljarð króna til viðbótar til hluthafa án þess að fara niður fyrir þau mörk. Ef salan á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor til ísraelska fyrirtækisins Rapyd, sem ákveðin var í sumar, verður samþykkt af Samkeppniseftirlitinu eiga að losna á bilinu átta til ellefu milljarðar króna til viðbótar sem hægt yrði að greiða út til hluthafa.
Því er ljóst að ef áform Arion banka um arðgreiðslur og endurkaup frá byrjun síðasta árs og þangað til að hlutfall eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum er komið niður í 17 prósent ganga eftir, og Samkeppniseftirlitið heimilar söluna á Valitor, munu hluthafar hans fá um 84,9 til 87,9 milljarða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til þessu útgreiðsluferli er lokið.
Til samanburðar má nefna að heildarhagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var 60,1 milljarðar króna. Það var meiri hagnaður en þessir þrír kerfislega mikilvægu bankar hafa hagnast um innan árs síðan 2015.