Telja menn að 6,75 prósent launahækkun í 9,4 prósent verðbólgu og verðbólguspá fyrir næsta ár upp á rúm 6 prósent sé viðunandi?,“ spyr Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands sem starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi, í færslu á Facebook í dag. Tilefnið eru þeir kjarasamningar sem VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna skrifuðu undir í dag og munu gilda út janúar 2024 verði þeir samþykktir í atkvæðagreiðslu.
Með gerð samninganna er búið að semja fyrir 80 prósent almenna markaðarins en stærsti hópurinn þar sem ósamið er við er Efling, næst fjölmennasta stéttarfélag landsins.
Stefán segir að kaupmáttarrýrnum ársins 2022 verði ekki bætti í samningnum sem undirritaður var í dag og kaupmáttaraukning á næsta ári geti aldrei náð kaupmáttaraukningu lífskjarassamningsins, sem var rúm fjögur prósent á ári fyrir verkafólk og að meðaltali um tvö prósent hjá öllu fullvinnandi fólki. Ef það verði kaupmáttaraukning á næsta ári þá verði hún að óbreyttu í kringum 0,5 prósent að meðaltali. „Þessu ná menn með því að telja hagvaxtaraukann sem samið var um í síðasta samningi (13.000 kr. á mánuði) með í þessari 6,75 prósent hækkun. Menn hafa þá keypt hagvaxtaraukann tvisvar! Þetta telst vera nokkuð mikil nægjusemi. Svo virðist sem menn hafi samið af sér í bullandi hagvexti, sem nálgast uppgripaárið 2007!“
Telja menn að 6,75% launahækkun í 9,4% verðbólgu og verðbólguspá fyrir næsta ár upp á rúm 6% sé viðunandi?...
Posted by Stefán Ólafsson on Monday, December 12, 2022
Að hámarki 66 þúsund krónur
Samningarnir sem Samtök atvinnulífsins undirrituðu við VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna í dag gilda frá 1. nóvember síðastliðnum og til 31. janúar 2024. Í þeim felast að almennar launahækkanir verða 6,75 prósent og þær taka gildi frá 1. nóvember síðastliðnum. Hækkunin getur þó að hámarki orðið 66 þúsund krónur, sem þýðir að þak hennar er rétt undir einni milljón króna mánaðarlaunum. Þá var samið um að desemberuppbót fyrir næsta ár verði 103 þúsund krónur og orlofsuppbót 56 þúsund krónur.
Gerðir eru skammtímasamningar vegna viðsjárverðra aðstæðna í efnahagslífinu sem birtast í mikilli þenslu og hárri viðvarandi verðbólgu, sem mælist nú 9,3 prósent. Mikil alþjóðleg óvissa vegna stríðsátaka og annarrar sviptinga vigta þar líka inn í.
Samningarnir eru framlenging á lífskjarasamningnum sem gerður var í apríl 2014 og með því er viðræðum um öll önnur atriði en launaliðinn frestað fram í næstu lotu viðræðna, sem stefnt er að því að ljúka seint á næsta ári. Þá er vonast til að verðbólga verði farin að hjaðna verulega og því betri forsendur til að semja til lengri tíma.