Ingvar Unnsteinn Skúlason, sem samkvæmt hlutafélagaskrá er eini eigandi Klappa Development, sagði við RÚV í dag að ætlunin væri að álverið yrði í eigu Íslendinga og að leitað yrði til fjárfestinga- og lífeyrissjóða vegna þessa. Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa hins vegar ekki fengið slíkt erindi inn á sitt borð.
Ekki er til orka til að starfrækja álverið, verði það byggt, og Landsvirkjun hefur ekkert tjáð sig um málið en fyrirtækið hefur ekki sýnt mikla tilburði til þess að selja orku til álvera á Íslandi undanfarin misseri. Þvert á móti hefur fyrirtækið verið að leitast eftir að selja orku til annars orkufreks iðnaðs sem greiðir hærra verð og þarf minni orku í starfsemi sína. Helstu rök þeirra sem standa að verkefninu við Hafursstaði fyrir væntanlegri orkuöflun er að fyrir áratugum síðan hefði verið lofað að orka sem fengist úr Blöndu yrði nýtt í heimabyggð.
Í fréttum RÚV kom einnig fram að miklar efasemdir væru á meðal sérfróðra manna í áliðnaði og fjárfesta um að 120 þúsund tonna álver myndi borga sig.