Gert er ráð fyrir um 215 milljóna króna aukafjárveitingu til embættis sérstaks saksóknara í fjáraukalögum sem tekin voru til 1. umræðu á Alþingi í gær. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Að auki er gert ráð fyrir 150 milljóna króna tímabundnu framlagi til eins árs sem nýta á í að ljúka eldri málum embættisins, að því er segir í grein Morgunblaðsins. Alls 365 milljónum króna meira en gert hafði verið ráð fyrir í fyrri áætlunum í fjárlögum.
Í gildandi fjárlögum var framlag til embættisins lækkað um 300 milljónir króna í takt við áætlun þess um framgang mála, og sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, meðal annars að þetta myndi þýða að hætta þyrfti rannsókn mála og segja upp starfsfólki. „Samkvæmt nýjum upplýsingum frá embættinu mun sú áætlun ekki standast,“ segir í fjáraukalögum.