Boðaður niðurskurður á fjárveitingum ríkissjóðs til Sérstaks saksóknara mun koma harðlega niður á embættinu, leiða til frekari uppsagna og gera því nær ókleyft að sinna rannsóknum á efnahagsbrotum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að embættið muni ekki geta sinnt sínu lögbundna hlutverki verði boðaður niðurskurður fjárveitinga að veruleika.
Blóðugur niðurskurður boðaður í frumvarpi fjármálaráðherra
Framlög úr ríkissjóði til embættis Sérstaks saksóknara verða skorin niður um nærri helming á milli ára, samkvæmt fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra fyrir næsta ár.
Framlög ríkisins til Sérstaks saksóknara námu röskri 561 milljón á þessu ári, en á næsta ári hefur ríkissjóður eyrnamerkt ríflega 292 milljónir króna til reksturs embættisins. Heildarniðurskurður á fjárlögum til Sérstaks saksóknara á þessu ári nam um 774 milljónum króna, sé tekið mið af 487 milljóna uppsöfnuðum fjárheimildum embættisins frá árinu 2013.
Hæst numu framlög ríkisins til Sérstaks saksóknara árið 2012, eða röskum 1,3 milljörðum króna. Síðan þá hafa fjárveitingar til embættisins verið skornar niður um hátt í 800 milljónir króna.
Starfsmönnum verður fækkað um þrjátíu til viðbótar
Til að bregðast við fyrirhuguðum niðurskurði var sextán starfsmönnum hjá Sérstökum saksóknara sagt upp störfum í vikunni. Þeirra á meðal eru átta lögreglumenn sem fá lausn frá embætti 1. nóvember. Þegar uppsagnirnar hafa gengið í gegn, verða um fimmtíu starfsmenn eftir hjá embættinu. Sérstakur saksóknari mun neyðast til að segja upp þrjátíu starfsmönnum til viðbótar um áramótin, verði ekki gerðar breytingar á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Í samtali við Kjarnann kveðst Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vona að fjárlagafrumvarp næsta árs muni taka breytingum í meðförum þingsins. Hann hefur óskað eftir fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætis- og dómsmálaráðherra til að gera honum grein fyrir stöðunni.
Embættinu gert ókleyft að sinna sínu lögbundna hlutverki
Ólafur Þór segir að verði niðurskurður á fjárframlögum til embættisins jafn blóðugur og í stefnir, munu starfsmennirnir sem eftir verða rétt ná að sinna þeim málum sem nú þegar eru komin til kasta dómstóla. Niðurskurðurinn muni óhjákvæmilega bitna á rannsóknum og opnunum á nýjum málum og embættinu gert ókleyft að sinna sínu lögbundna hlutverki.
Fjórtán mál bíða nú rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, þar af fjögur umfangsmikil. Í dag eru 96 mál til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara, þar af 39 svokölluð hrunmál sem langt eru komin í rannsókn. Í 187 málum er rannsókn lokið og þau ýmist farin til ákærumeðferðar eða hafa hlotið efnislega meðferð fyrir dómstólum. Af þessum 187 málum, voru gefnar út 18 ákærur vegna 27 hrunmála. Þá bíða ellefu hrunmál til viðbótar ákvörðunar um saksókn.
Málin sem hafa verið til rannsóknar hjá embætti Sérstaks saksóknara en ekki leitt til ákæru eru 330 talsins. Þá hefur embættið vísað frá 71 máli, rannsókn hefur verið hætt í 132 málum og í 23 tilvikum hafa mál verið sameinuð öðrum málum. Embættið hefur þar að auki sent 71 mál til annarra embætta til meðferðar og önnur verkefni embættisins, það er réttarbeiðnir erlendis frá og rannsóknarbeiðnir innanlands, eru 33 talsins. Alls hafa 637 mál og verkefni komið til kasta Sérstaks saksóknara frá stofnun.
Lögð áhersla á að ljúka aðeins fyrirliggjandi málum
Sérstakur saksóknari segir viðbúið að skert fjárframlög til embættisins muni gera því nær ókleyft að sinna rannsóknum. Þá verði lögð höfuðáhersla á að ljúka þeim málum sem búið er að gefa út ákærur í. "Það útheimtir mikinn mannafla og tíma að reka mál fyrir dómstólum, en á næsta ári fara fram nokkur stór réttarhöld í málum hjá okkur."
Sem dæmi um verkefni sem Sérstakur saksóknari mun reka fyrir dómstólum á næstu mánuðum, má nefna aðalmeðferð fyrir Hæstarétti Íslands í Al-Thani málinu svokallaða, stór markaðsmisnotkunarmál tengd fyrrverandi stjórnendum Kaupþings annars vegar og Landsbankans hins vegar, Milestone-málið, fjárdráttarmál tengt Marple, félags í eigu Skúla Þorvaldssonar, CLN-málið sem tengist umboðssvikum upp á 510 milljónir evra, Aserta gjaldeyrismálið og Stím-málið.
"Ef ráðist verður í þennan niðurskurð, mun nær allt annað en þessi málarekstur stoppa hjá okkur. Það verður verðugt verkefni að halda utan um hann, sérstaklega þar sem ekki er hægt að reikna með hámarksafköstum frá þeim starfsmönnum sem hefur verið sagt upp."
Ólafur Þór hefur miklar áhyggjur af framtíð embættis Sérstaks saksóknara. "Nú er til umræðu að íslenska ríkið kaupi upplýsingar erlendis frá um möguleg skattaundanskot Íslendinga, og skattaskjól þeirra erlendis. Ég verð að viðurkenna að mér finnst vanta inn í þá umræðu hvaða embætti það er nú aftur sem sækir til saka í skattamálum."