Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og Bryndís Björk Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sóttu bæði um embætti héraðssaksóknara, en umsóknarfrestur um starfið er nú útrunninn. Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara sem hefur saksótt nokkur af stærstu hrunmálum þess, sækist einnig eftir starfinu. Það gera Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Hulda Elsa Bjögvinsdóttir saksóknari líka.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.
Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, Þá mun embættið annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum, ásamt rannsóknum á brotum starfsmanna lögreglu og brotum gegn valdstjórninni. Starfsemi embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra mun því flytjast til þess þegar embætti héraðssaksóknara tekur til starfa 1. janúar 2016.
Þrjú vilja í Hæstarétt
Í tilkynningu innanríkisráðueytisins segir frá því að frestur til umsóknar um þrjú embætti sé runninn út: Embætti hæstaréttardómara, embætti héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara. Þrír sækjast eftir því að verða skipaðir dómarar við Hæstarétt: Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson. Bæði Ingveldur og Karl hafa verið settir hæstaréttardómarar og Davíð Þór er fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Stefnt er að því að skipa í embættið frá og með 1. október næstkomandi eða hið fyrsta eftir að nefnd um hæfni dómara hefur lokið starfi sínu
Fimm sóttu um starf varahéraðssaksóknara. Björn Þorvaldsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir sækjast líka eftir því starfi, líkt og starfi héraðssaksóknara. Það gera Arnþrúður Þórarinsdóttir, Kolbrún Benediktsdóttir og Daði Kristjánsson einnig.
Í tilkynningunni segir að ráðuneytið hafi ákveðið að fela nefnd að fara yfir umsóknirnar og á hún að skila Ólöfu Nordal innanríkisráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embætti héraðssaksóknara frá og með 1. september 2015 og mun hann vinna að undirbúningi að því að embætti héraðssaksóknara taki til starfa 1. janúar 2016. Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embætti varahéraðssaksóknara frá og með 1. janúar 2016.