Embætti sérstaks saksóknara er með til rannsóknar nokkur mál tengd Sparisjóðnum í Keflavík, einnig þekktum sem SpKef, samkvæmt heimildum Kjarnans. Rannsókn málanna er langt komin og þess er að vænta að ákvörðun verði tekin um hvort þau muni leiða til ákæru innan skamms. Niðurskurður á fjárframlögum til embættisins gætu þó tafið lok rannsóknanna þar sem hluti þeirra rannsakenda sem hefur sinnt þeim rannsóknum hefur verið sagt upp störfum.
Fyrr í þessari viku gaf embættið út ákæru á hendur fyrrum forstjóra SPRON og fjórum stjórnarmönnum sjóðins vegna meintra umboðssvika þegar SPRON lánaði Exista tvo milljarða króna þann 30. september 2008. Samkvæmt heimildum Kjarnans snúa þau mál sem tengjast sparisjóðum landsins, og eru enn til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, öll að Sparisjóðnum í Keflavík.
Afkoma kjarnareksturs neikvæð árum saman
Sparisjóðurinn í Keflavík virðist, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina sem kom út í apríl 2014, hafa verið einna verst rekinn allra sparisjóðanna. Vaxtamunur hans var til að mynda oftast lægri en hjá öllum hinum sjóðunum, útlán hans virðast hafa verið ótrúlega illa undirbyggð og afkoma sjóðsins var nánast einvörðungu bundin við gengi hlutabréfa sem hann átti.
Vegna þessara þátta var afkoma sjóðsins af kjarnarekstri neikvæð frá árinu 2003 og fram að þeim degi þegar hann féll. Samtals nam tapið 30 milljörðum króna, en þorri þeirrar upphæðar kom til á árunum 2008 og 2009. Til að setja slakan undirliggjandi rekstur sjóðsins í samhengi nam tap af kjarnarekstri hans, hefðbundinni bankastarfsemi, 700 milljónum króna á árinu 2006 þrátt fyrir að kynntur hagnaður fyrir skatta væri tæpir 5,6 milljarðar króna.
Endurskoðunarfyrirtækið PwC gerði svarta skýrslu um starfsemi sparisjóðsins sem skilað var í apríl 2011. Kjarninn birti skýrsluna í heild sinni í ágúst 2013.
Mjög léleg útlán
Útlánin sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti voru mörg hver mjöh léleg. Lán til venslaðra aðila voru umtalsverð, 90 prósent útlána sem voru með veði í hlutabréfum voru tryggð með veði í óskráðum bréfum, verðmæti trygginga var í mörgum tilvikum langt undir lánsfjárhæð og ofmetið.
Geirmundur Kristinsson var sparisjóðsstjóri SpKef árum saman.
Sparisjóðurinn var hins vegar lítið fyrir að framkvæma veðköll og því var fyrirséð löngu áður en sjóðurinn féll að mikil útlánatöp sem höfðu ekki verið bókfærð væru fram undan.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er farið yfir stærstu lántakendur sjóðsins. Í úrtakinu sem tekið var voru 23 lánahópar. Fyrirgreiðsla til þeirra nam ellefu milljörðum króna í lok árs 2007 en hafði hækkað í 24,3 milljarða króna í lok árs 2008, meðal annars vegna gengisbreytinga. Þessir hópar fengu samtals 26,6 prósent af heildarútlánum sparisjóðsins. Þorri hópsins eru umsvifamiklir aðilar í atvinnulífinu á Suðurnesjum. Í skýrslunni segir að „sérgreindar niðurfærslur vegna þessara lánahópa í úrtakinu námu samtals tæplega 45% af virðisrýrnun útlána og krafna sparisjóðsins í lok árs 2008 og rúmum 35% í lok árs 2009“.