Hæstiréttur hefur staðfest fyrri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska ríkið skuli greiða Vífilfelli til baka 80 milljónir sem fyrirtækið hafði greitt í stjórnvaldssekt vegna meintra brota á samkeppnislögum. Dómur þess efnis féll í dag.
Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið þurfa einnig að greiða fyrirtækinu 1,5 milljónir í málskostnað fyrir Hæstarétti, samkvæmt dómnum.
Forsaga málsins er sú, að með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins árið 2011 var Vífilfell talið hafa á árunum 2005 til 2008 brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, með gerð fjölda viðskiptasamninga við endurseljendur á gosdrykkjum, og var Vífilfelli gerð sekt upp á 260 milljónir. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði svo sektina í 80 milljónir.
Í tilkynningu frá Vífilfelli kemur fram að fyrirtækið fagni dómnum og hlakki til þess að geta tekið þátt í samkeppni á jafnréttisgrundvelli.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður snúið við úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála þess efnis að Vífilfell hafi brotið gegn samkeppnislögum.