Samkvæmt yfirliti yfir mannafla- og tímaskráningu hjá sérstökum saksóknara, vegna rannsóknar embættisins á meintu verðsamráði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, komu 31 starfsmaður embættisins að rannsókn málsins. Samkvæmt skráningunni, sem lögð var fram fyrir dómi og Kjarninn hefur undir höndum, unnu starfsmennirnir að málinu í alls 11.854 vinnustundir. Þá er ótalinn tímafjöldinn sem fór í flutning málsins fyrir Héraðsdómi. Þá hefur Kjarninn óskað eftir sambærilegum upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu, þar sem upphaf málsins má rekja til. Ekkert svar hefur enn borist Kjarnanum frá stofnuninni.
Alls tóku sextán starfsmenn sérstaks saksóknara þátt í úrvinnslu gagna og yfirheyrslum við rannsókn verðsamráðsmálsins hjá embættinu, sem voru lang mannaflsfrekustu liðir rannsóknarinnar að því er fram kemur í yfirliti embættisins. Skráningin gildir frá þeim tíma er málið barst embætti sérstaks saksóknara. Allir tólf sakborningar málsins voru sýknaðir, nema einn sem hlaut skilorðsbundinn dóm.
90 milljóna króna málsvarnarlaun lentu á ríkinu
Upphaflega voru þrettán starfsmenn fyrirtækjanna ákærðir fyrir þátt sinn í hinu meinta verðsamráði. Einni ákæru var vísað frá, og því stóðu tólf eftir sem tóku til varna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn sýknaði í gær alla sakborninga af sakargiftum, fyrir utan framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko sem var sakfelldur fyrir hvatningu til verðsamráðs. Hann hlaut eins mánaðar skilorðsbundinn dóm til tveggja ára, en hann neitaði sök fyrir dómi. En auk þessa dæmdi Héraðsdómur íslenska ríkið til að greiða nær öll málsvarnarlaun sakborninganna, rúmlega 90 milljónir króna.
Mennirnir voru handteknir í mars 2011, og því hefur málið staðið yfir í rúm fjögur ár. Málið kom upprunalega til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra frá Samkeppniseftirlitinu. Þann 1. september tók svo sérstakur saksóknari við rannsókn málsins þegar efnahagsbrotadeildin var sameinuð embættinu.
Ríkissaksóknari á eftir að taka ákvörðun um hvort dómsniðurstöðunni verður áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Við ákvarðanatökuna mun þar sjálfsagt vega þungt hvort mikilvægt sé að fá fram niðurstöðu Hæstaréttar út frá fordæmisgildi.