Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra um að framlag ríkisins í félagslegan táknmálstúlkasjóð verði hækkað um sex milljónir króna á ári.
Félag heyrnarlausra vakti athygli á því í lok maí að félagslegi túlkasjóðurinn væri tómur á ný. Þetta var í þriðja skiptið á rúmum tveimur árum sem fjármagn kláraðist. Menntamálaráðuneytið hafi tekið þá ákvörðun að úthluta fjármagni ársins 2015 fyrir þrjá mánuði í senn og fjármagnið hverju sinni dugi ekki fyrir túlkun þessa þrjá mánuði.
„Þetta þýðir að fólk sem reiðir sig á íslenskt táknmál til samskipta er útilokað frá því að taka þátt í t.d. húsfundum og í íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna. Túlkaþjónusta vegna samskipta við t.d. vinnufélaga, bankastarfsmanninn, fasteignasalann, tryggingafélagið, lögmanninn. Búið er að loka á öll þessi samskipti eina ferðina enn,“ sagði í fréttatilkynningu sem Félag heyrnarlausra sendi frá sér í maí. „Félag heyrnarlausra hefur með bréfum, minnisblöðum og stjórnsýslukærum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem og í annarri umfjöllun, ítrekað vakið athygli á þeirri alvarlegri stöðu sem upp kemur þegar fjármagn til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu þrýtur. Hefur félagið einnig kvartað til umboðsmanns Alþingis sem er með málið í vinnslu.“
Túlkasjóðurinn fékk 23,6 milljónir króna fyrir allt árið í ár, sem var sem fyrr segir skipt í fernt. Tómum túlkasjóði hefur ítrekað verið mótmælt að undanförnu, og þingmenn hafa einnig vakið athygli á stöðunni. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, boðaði í ræðu á Alþingi fyrr í vikunni að hún hygðist leggja fram frumvarp að danskri fyrirmynd um að túlkaþjónusta verði alltaf til reiðu fyrir þá sem hana þurfa. Það gangi ekki lengur að fólk búi við „kvótakerfi tjáningarinnar“.
Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kemur fram að umsóknum í sjóðinn hefur fjölgað á undanförnum árum. Árið 2010 voru 2108 klst. túlkaðar en 2555 klst. árið 2014. Á sama fimm ára tímabili fjölgaði notendum endurgjaldslausra túlkaþjónustu úr 161 í 193. Árið 2013 var framlag til sjóðsins 18,6 milljónir, 24,6 milljónir árið 2014 og heildarfjárhæð á yfirstandandi verður 30,6 milljónir.