Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir settist í stjórn Saga Capital nokkrum mánuðum eftir að bankinn hafði framkvæmt verðmat á færeyska olíufélaginu P/F Magn. Verðmatið var framkvæmt vegna ágreinings sem átt hafði sér stað í kjölfar þess að P/F Magn var selt út úr eignarhaldsfélaginu Fons, deginum áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta.
Skiptastjóri Fons var ósáttur með verðið sem nýr eigandi P/F Magn greiddi og óskaði eftir nýju verðmati. Nýr eigandi P/F Magn var félag í eigu Guðmundar Arnar Þórðarsonar, eiginmanns Svanhildar Nönnu. Á grundvelli verðmatsins var gerður nýr kaupsamningur milli Fons og félags Guðmundar. Í reikningum þess félags, sem heitir Hedda ehf., kemur fram að P/F Magn var metið á 233,5 milljónir króna eftir kaupin.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.
Upplýst hefur verið í ýmsum fjölmiðlum undanfarna daga að Svanhildur Nanna, Guðmundur Örn og þremenningar sem fengu að kaupa hlut í P/F Magn á miklu undirverði nokkrum mánuðum áður en félagið var selt á fjóra milljarða króna, hafi hagnast gríðarlega á viðskiptum með P/F Magn. Viðskiptum sem byggðu meðal annars á verðmati Saga Capital.
Svanhildur Nanna og Guðmundur Þór eignuðust einnig allt hlutafé í Skeljungi á árunum 2008 til 2009. Þau seldu það fyrirtæki samhliða P/F Magn. Samtals var söluverð fyrirtækjanna tveggja um átta milljarðar króna.
Eigandi Heddu var varamaður í stjórn
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að P/F Magn hefði verið selt út úr Fons 29. apríl 2009, daginn áður en Fons var tekið til gjaldþrotaskipta. Óskar Sigurðsson, sem skipaður var skiptastjóri Fons, reyndi að rifta sölunni í júní sama ár með vísun til laga um gjaldþrotaskipti. Kaupandinn, Hedda ehf., mótmælti riftuninni. Í ljós þess ágreinings var Saga Capital fengið til að meta verðmæti P/F Magn og að því fengnu var nýr kaupsamningur gerður milli þrotabús og Heddu ehf. Hann er dagsettur 1. ágúst 2009.
Í ársreikningi Heddu fyrir árið 2009 var hluturinn í P/F Magn hins vegar metinn á 233,5 milljónir króna.
Óskar vildi ekki staðfesta söluverðið á P/F Magn þegar Kjarninn leitaði eftir því. Sagði hann að trúnaðarákvæði í samningnum hindri það. Í ársreikningi Heddu fyrir árið 2009 var hluturinn í P/F Magn hins vegar metinn á 233,5 milljónir króna.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir settist í stjórn Saga Capital í desember 2009. Guðmundur Örn Þórðarson, eiginmaður hennar og meðfjárfestir, var við sama tilefni kjörin sem varamaður í stjórn. Svanhildur Nanna sat í stjórn Saga Capital sem óháður stjórnarmaður. Hún átti enga hluti í bankanum.
36földuðu fjárfestingu sína á nokkrum mánuðum
Halla Sigrún Hjaltadóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
P/F Magn var selt á um fjóra milljarða króna í lok árs 2013. Guðmundur og Svanhildur Nanna höfðu þá selt 66 prósent hlut í P/F Magn til þriggja fjárfesta, Höllu Sigrúnar Hjaltadóttur, Einars Arnar Ólafssonar og Kára Þórs Guðjónssonar, sem öll unnu hjá fyrirtækjaráðgjöf Glitnis þegar hjónin keyptu Skeljung þaðan sumarið 2008. Samkvæmt ársreikningum virðist kaupverð hvers og eins þeirra sem greitt var fyrir 22 prósent hlut hafa verið um 24 milljónir króna. Halla Sigrún er stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins.
Í ársreikningi Heddu fyrir árið 2013 kemur fram að hagnaður af sölunni var 3.718 milljónum króna. Fyrir 34 prósent hlut sinn í P/F Magn fengu Guðmundur og Svanhildur rúmlega 1,3 milljarða króna í sinn hlut. Hinir þrír eigendurnir, Halla Sigrún, Einar Örn og Kári Þór, höfðu keypt hluti sína í P/F Magn á árinu 2013. Þegar fyrirtækið var selt þá hagnaðist hvert og eitt þeirra um 860 milljónir króna. Engar rökrænar skýringar hafa fengist á því hvað olli því að Svanhildur Nanna og Guðmundur ákváðu að gefa frá sér slík verðmæti fyrir jafn lítið fé og raun ber vitni.