Fasteignafélagið Reitir er með hugmynd um að skipuleggja sex fjölbýlishús á reitum félagsins á bak við Hilton Nordica-hótelið við Suðurlandsbraut.
Þetta kom fram í kynningu Friðjóns Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá Reitum, á kynningarfundi um samgöngu- og skipulagsmál, sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í síðustu viku.
Friðjón, sem hefur yfirumsjón með skipulagsverkefnum og nýrri uppbyggingu hjá Reitum, fór þar yfir þróunarverkefni sem Reitir eru að vinna að meðfram svokölluðum samgöngu- og þróunarásum á höfuðborgarsvæðinu. Á meðal verkefna sem Reitir koma að og Friðjón fór yfir á fundinum eru til dæmis vænt umbreyting Skeifunnar og fyrirhuguð uppbygging á svokölluðum Orkureit.
Fram kom í máli Friðjóns að Reitir hefðu nýlega keypt húsnæðið að Hallarmúla 2, þar sem Tölvutek var til húsa árum saman og að nú væri til skoðunar hvernig mætti hugsa allan reitinn fyrir aftan Nordica-hótelið í heild sinni í nálægð við þennan samgönguás í borginni, en sem kunnugt er mun Borgarlína fara um Suðurlandsbrautina innan fárra ára.
„Við erum að skoða hvort það færi betur á því að vera með íbúðaruppbyggingu þarna baka til á lóðinni í stað hóteluppbyggingar, eins og áform voru um áður,“ sagði Friðjón.
Hann sýndi síðan myndir sem hafa verið unnar í samstarfi við arkitektastofuna T.ark af mögulegu útliti húsanna og nýrri vistgötu á milli Hallarmúla og Lágmúla, sem þau myndu standa við.
Samkvæmt því sem sagt er í glærukynningu Friðjóns er horft til þess að það væri hægt að koma fyrir allt að 120 íbúðum og 1.300 fermetrum af atvinnuhúsnæði á þessu svæði.
Hér að neðan má sjá erindi Friðjóns af fundinum í heild sinni: