Forsætisráðherra Túnis, Habib Essid, hefur látið reka sex lögreglustjóra eftir árás liðsmanna Íslamska ríkisins (ISIS) á Bardo safnið í höfuðborginni Túnis. Einn þriggja árásarmanna er enn á flótta, en Essid léta hafa eftir sér í morgun, að sá myndi „ekki komast langt“, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. Sá sem er eftirlýstur heitir Yassine Abidi, og hefur innanríkisráðuneyti í Túnis þegar birt opinberlega myndir af honum og óskað eftir hjálp frá almenningi.
Öryggissveitir hersins í Túnis felldu tvo af ódæðismönnunum. Í viðtölum hefur forsætisráðherrann sagt að lögreglan hefði ekki verið nægilega skilvirk þegar kæmi að því að gæta öryggis í safninu. Á því bæru lögreglustjórarnir ábyrgð, og því þyrftu þeir að víkja.
Hinn eftirlýsti, sem gengur laus, Yassine Abidi. Mynd: Innanríkisráðuneytið í Túnis.
Árásin á Bardo safnið er mikið áfall fyrir Túnis, sem á mikið undir ferðaþjónustu. Í árásinni voru 23 gestir á safninu drepnir, að mestu ferðamenn frá Evrópulöndum. Forseti landsins, Beji Caid Essebsi, sagði á blaðamannafundi á laugardaginn að allt yrði gert til að tryggja öryggi óbreyttra borgara, svo að ferðamenn víða um heim gætu heimsótt landsins og notið þess góða sem það hefði upp á að bjóða.
Ódæðismennirnir eru sagðir hafa fengið þjálfun í Líbýu, á svæði sem ISIS hefur á sínu valdi.