Kjarninn hefur tekið saman nokkur af stærstu fréttamálum dagsins í dag úti í hinum stóra heimi.
- Fjármálaráðherrar evruríkjanna hittast á fundi í dag til þess að reyna að leysa úr skuldavanda og lánaendurgreiðslum Grikklands. Í gær lögðu Grikkir fram beiðni um sex mánaða framlengingu á fjárveitingu til landsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók vel í tillögur Grikkja en Þjóðverjar skutu þær í kaf.
- Bretland og Evrópusambandið mislásu Rússland herfilega í aðdraganda stríðsins í Úkraínu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem utanríkismálanefnd lávarðadeildar breska þingsins hefur gert, þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd harðlega.
- Bandaríkin og Íran munu halda áfram viðræðum um kjarnorkuáætlanir Írana í Genf um helgina, að sögn íranskra stjórnvalda.
- Stríðandi fylkingar í Jemen hafa komist að samkomulagi um að setja saman bráðabirgðastjórn til að leiða ríkið út úr erfiðleikunum.
- Eigendur breska blaðsins Daily Telegraph fengu 250 milljóna punda lán frá HSBC bankanum rétt áður en blaðamenn blaðsins eru sagðir hafa verið hvattir til þess að birta ekki neikvæðar fréttir um bankann. Blaðamenn hafa greint frá því að viðhorfið gagnvart bankanum hafi breyst í byrjun 2013, en lánið fékkst í lok desember 2012.
- 59 ára gömul kona í Svíþjóð, sem hefur verið handtekin fyrir að halda dætrum sínum föngnum í meira en áratug, neitar ásökunum. Fjölmiðlar í Svíþjóð grafa nú upp ýmislegt um málið, og velta upp spurningum eins og því hvernig á því stóð að börnin mættu ekki í skóla svo árum skiptir og enginn virðist hafa gert neitt í málinu.