Sextíu prósent þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að Félagi atvinnurekenda (FA) hefðu viljað halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram, samkvæmt nýrri könnun félagsins. Um 19 prósent fyrirtækjanna segjast hlynnt aðild en 41 prósent fyrirtækja eru andvíg.
39 prósent aðspurðra sögðust telja að taka ætti upp evruna á Íslandi við aðild að ESB, en í samskonar könnun í fyrra vildu 57 prósent taka upp evru. Um fjörutíu prósent sögðust nú vera á móti því að taka upp evruna en hlutfallið var 28 prósent í fyrra.
Þá sögðust 27 prósent aðspurðra vera sammála því að Ísland ætti að taka ætti upp annan gjaldmiðil einhliða á Íslandi.
Niðurstöður könnunarinnar meðal félagsmanna FA. Myndritið er af síðu félagsins.
64 prósent fyrirtækja með beina félagsaðild svöruðu könnuninni.
Ný tillaga lögð fram á næstunni
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að ný tillaga um viðræðuslit við Evrópusambandið verði lögð fyrir ríkisstjórnina á allra næstu fundum hennar. Vinna við tillöguna er á lokametrunum í utanríkisráðuneytinu.
Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Sjálfstæðisflokksins að sumir þeirra telji litla nauðsyn á framlagningu tillögunar. Ljóst sé að hún muni taka tíma frá öðrum málum á Alþingi og tíminn til þingfrestunar sé naumur.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að með tillögunni séu forystumenn Sjálfstæðisflokksins að svíkja beinar yfirlýsingar um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um framhald viðræðna. „Ef menn ætla að svíkja beinar yfirlýsingar um þetta verður því mætt með eldi og brennisteini“.
Legið hefur ljóst fyrir undanfarnar vikur að ný tillaga væri á leiðinni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ljáði máls á því í lok síðasta árs og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sagði á Alþingi þann 20. janúar að hann gerði ráð fyrir því að ný tillaga yrði lögð fram innan fárra daga.
Hann kallaði jafnframt eftir efnislegri umræðu um það hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.
Meirihluti landsmanna vill ekki slíta viðræðum
Meirihluti landsmanna vill ekki að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland. 35,7 prósent vilja að umsóknin verði dregin til baka en 11,1 prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup hafa heldur aldrei fleiri verið hlynntir því að Ísland verði aðili að sambandinu en nú, eða 46,2 prósent. Tæp 54 prósent svarenda voru andvígir aðild.