Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fundaði í gær með sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasiliev, í sendiráðsbústaði Rússa í Reykjavík. Þetta staðfestir Kolbeinn í samtali við Kjarnann. Hann segir að í samtali við Rússa hafi verið leitað útskýringa á þeirra hlið málsins, enda sé það einn tilgangur sendiherra hérlendis. Rætt hafi verið hvort einhver möguleiki sé á að Rússar opni fyrir innflutning frá Íslandi, þrátt fyrir þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússum.
Tólf dagar eru liðnir frá því að Íslandi var bætt á innflutningsbannlista Rússa. Bannið hefur í för með sér að stærsti markaður með uppsjávarfisk lokast fyrir íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Rússar hafa á síðustu árum meðal annars verið stærsti kaupandi íslensks makríls. Útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands á síðasta ári nam um 24 milljörðum króna samkvæmt Hagstofunni. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi áætla að undir eðlilegum kringumstæðum myndi verðmæti sjávarafurða í ár til Rússlands nema um 37 milljörðum króna.
Spurður um hvort einhver framvinda hafi orðið á málum segir Kolbeinn að fátt nýtt sé að frétta. Unnið sé með stjórnarráðinu við að lágmarka skaðann sem hlýst af banninu, til að mynda með útgáfu nýrra reglugerða, auk þess sem rætt er við Evrópusambandið um stöðu mála. Lítið nýtt hafi borist frá Rússlandi og Evrópusambandinu frá því að bannið var útvíkkað til Íslands og fleiri landa.
Ráðamenn á Íslandi hafa frá setningu innflutningsbannsins átt í samskiptum við rússnesk yfirvöld. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi við Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, símleiðis daginn eftir að bannið tók gildi og þá hitti Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sendiherra Rússa á Íslandi, sama dag og bannið tók gildi.