Sígaunahöfðinginn (neitar að kalla sig Roma) Gimi Levakovic sem frægur er að endemum í Danmörku hefur enn einu sinni komist á forsíður danskra blaða. Margir þingmenn ná ekki upp í nefið á sér eftir að Eystri Landsréttur sneri við dómi Undirréttar sem hafði vísað Levakovic úr landi.
Flestir Danir kannast við Gimi Levakovic og fjölskyldu hans. Það kemur ekki til af góðu einu. Levakovic fjölskyldan flutti frá Króatíu til Danmerkur fyrir 43 árum og hefur alla tíð síðan verið á framfæri danskra skattborgara og hefur þegið jafngildi 1700 milljóna íslenskra króna sér til framfærslu. Fjölskyldan, sem býr á Amager, hefur stækkað á þessum 43 árum og telur nú fleiri en 40. Enginn úr fjölskyldunni hefur stundað launaða vinnu. Framfærslulífeyrir hins opinbera hefur þó ekki hrokkið til og fjölskyldan, einkum karlarnir, hafa drýgt tekjurnar með ránum og gripdeildum. Ættarhöfuðið Gimi Levakovic hefur í viðtölum sagt að fjölskylda sín standi saman í blíðu og stríðu. Afskipti lögreglunnar hafa stundum orðið til að trufla heimilisfriðinn. Sjálfur hefur Gimi, sem er 46 ára, setið inni í tæp sjö ár samtals og bræður hans og bræðrasynir hafa margoft setið inni, um lengri eða skemmri tíma. Sumum þeirra hefur oftar en einu sinni verið vísað úr landi en þeir hafa jafnharðan snúið aftur til Danmerkur og haldið áfram fyrri iðju.
Sjónvarpsþættir vöktu mikla athygli
Þótt margir Danir hafi kannast við Levakovic fjölskylduna, og ekki allir að góðu einu, varð fjölskyldan landsþekkt eftir tvo þætti sem sjónvarpsstöðin TV2 sýndi í janúar sl. og byggðust að miklu leyti á viðtölum við ættarhöfuðið Gimi. Þættirnir vöktu mikla athygli og hneykslan. „Hvernig má það vera að þessi stóra fjölskylda geti búið hér áratugum saman og aldrei lyft svo mikið sem litla fingri í ærlegri vinnu“ spurðu margir. Aðrir, þar á meðal stjórnmálamenn, lýstu undrun á því að þrátt fyrir tugi dóma og brottvísun sumra úr fjölskyldunni úr landi dveldist öll fjölskyldan hér ár eftir ár.
Tuttugu og sjö dómar
Eins og fram kom fyrr í þessum pistli er Gimi Levakovic kunnugur dönskum dómsölum. Tuttugasti og sjöundi dómurinn yfir honum féll fyrir nokkru í Bæjarréttinum (Héraðsdómi) í Næstved. Þar var hann dæmdur fyrir að hafa haft í hótunum og verið með byssu í fórum sínum í gleðskap 1. maí sl. Dómurinn hljóðaði uppá fimmtán mánaða fangelsi og brottvísun úr landi að lokinni afplánun og jafnframt að honum væri óheimilt að stíga fæti á danska jörð í tólf ár. Gimi Levakovic áfrýjaði dóminum.
Eystri-Landsréttur (millistig en í Danmörku eru þrjú dómstig) snéri brottvísunardómi Bæjarréttarins við en þyngdi fangelsisdóminn um þrjá mánuði. Auk þriggja dómara við Eystri- Landsrétt voru þrír meðdómarar kallaðir til. Dómurinn klofnaði, þrír vildu staðfesta dóm Bæjarréttar en þrír vildu fella niður brottvísunardóminn. Þegar atkvæði falla jafnt ráða hagsmunir þess sem dæmdur er. Í þessu tilviki réð það úrslitum að Gimi Levakovic á tvö börn sem búa hjá honum og auk þess hefur hann engin tengsl við Króatíu en þangað hefði hann verið sendur hefði komið til brottvísunar. Dómurinn var kveðinn upp í fyrradag að viðstöddum fjölda fólks, þar á meðal mörgum fréttamönnum. Danskir fjölmiðlar segja að Gimi Levakovic sem venjulega er kokhraustur hafi verið mjög stressaður í dómsalnum og svitinn perlað af honum. „Þegar hann heyrði að sér yrði ekki vísað úr landi grét hann eins og smábarn“ sagði eitt dönsku blaðanna. Saksóknari sagði strax að dómsuppkvaðningu lokinni að hann myndi freista þess að fá málinu skotið til Hæstaréttar (en slíkt er ekki sjálfgefið) og vonaðist til að það tækist.
Ráðherrum og þingmönnum ekki skemmt
Þótt Gimi Levakovic og fjölskyldan hafi glaðst yfir niðurstöðu Eystri-Landsréttar ríkti ekki sama ánægjan hjá dómsmálaráðherranum Sören Pind og Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála. Inger Stöjberg sagði að greinilega væri kominn tími til að herða reglur um brottvísun og þótt hún nefndi engin nöfn fór ekki á milli mála hvað hún átti við. Sören Pind dómsmálaráðherra skrifaði á Facebook síðu sína að hann myndi biðja Ríkislögmann að sjá til þess að málið færi fyrir Hæstarétt, ef slíkt væri mögulegt. Verjandi Levakovic sagðist undrast þessi orð dómsmálaráðherrans, engu líkara væri en hann vildi taka upp stjórnarhætti eins og tíðkuðust í Sovétríkjunum og Þýska Alþýðulýðveldinu. Nokkrir þingmenn hafa lýst mikilli undrun vegna niðurstöðu Eystri-Landsréttar.
Vilja hertar reglur strax
Ef Hæstiréttur ákveður að taka málið til meðferðar getur liðið upp undir ár áður en dómur verður kveðinn upp. Þingmenn Jafnaðarmanna og Danska Þjóðarflokksins hafa lýst sig samþykka því að reglurnar um brottvísun verði strax teknar til endurskoðunar. Hvert sem framhaldið verður má slá því föstu að danska þjóðin fylgist grannt með málinu. Einn viðmælandi Danska útvarpsins sagði að meðan Levakovic fjölskyldan væri í landinu myndi ekki skorta umræðuefni. Miðað við netsíður og „kommentakerfi“ er mikið til í því.