Sigmar Guðmundsson dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu var í dag sýknaður í meiðyrðamáli Jóns Baldvins Hannibalssonar gegn honum og Aldísi Schram. Tvenn ummæli Aldísar, dóttur Jóns Baldvins, voru hins vegar dæmd ómerk af Héraðsdómi Reykjavíkur, sem kvað upp dóm í málinu kl. 13 í dag.
Alls vildi Jón Baldvin að átta ummæli hennar um hann yrðu dæmd dauð og ómerk og fern ummæli Sigmars.
Bæði mbl.is og Vísir segja frá niðurstöðunni í málinu, sem snýst um ummæli sem látin voru falla í viðtali Sigmars og Helga Seljan við Aldísi Schram í Morgunútvarpi Rásar 2 í febrúar árið 2019 og einnig ummæli Aldísar á netinu eftir viðtalið.
Þau tvennu ummæli sem voru ómerkt af héraðdómi voru orð Aldísar um að Jón Baldvin væri haldinn barnagirnd. Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn sagði Aldís í Morgunútvarpinu og síðar talaði hún um að sigra hann og hans barnaníðingabandalag á Facebook.
Jón Baldvin gerði enga fjárkröfu á hendur Aldísi, en hins vegar 2,5 milljóna kröfu á hendur Sigmari. Þeirri kröfu var vísað frá, enda Sigmar talinn sýkn saka.