Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa í morgun tekið þátt í umræðum á Alþingi undir liðnum fundarstjórn forseta. Undanfarna rúma viku hafa stjórnarandstæðingar notað þennan lið til að koma á framfæri óánægju sinni með tillögu atvinnuveganefndar um að færa virkjanir í nýtingarflokk rammaáætlunar. Undan þessu kvörtuðu ráðherrarnir í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kom í ræðustól og sagði stjórnarandstöðuna hafa slegið ýmis met í umræðum undanfarinna daga. „Þau hafa haldið 783 ræður um fundarstjórn forseta,“ sagði hann og sagði annað eins aldrei hafa sést áður. Sú nýja pólitík, sem sumir þingmenn hafi sagst standa fyrir sé þannig farin fyrir lítið. Hann sagði þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata hafi reynst ekki aðeins „jafnslæmir og allir hinir, þeir reyndust verri.“
Bjarni kom einnig í ræðustól og sagði það „óskaplega dapurlegt“ að það þurfi að taka svo mikinn tíma í að tala um form málsins en ekki efni þess. Mikið var gripið fram í fyrir Bjarna og hann endaði á því að segja „Jæja, haldið bara áfram að tala, ég skal ekki trufla frekari ræðuhöld hér um fundarstjórn forseta. Gjörið svo vel, ræðustóllinn er ykkar.“
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, kom einnig í ræðustól og sagðist lýsa yfir áhyggjum af „þeirri vanstillingu sem hefur einkennt málflutning“ Sigmundar og Bjarna. Hann sagði þá einfaldlega verða að axla ábyrgð á því hvernig þeir hafi lagt málið, breytingar á rammaáætlun, fyrir þingið. „Þeir verða seint kallaðir miklir friðarhöfðingjar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir um Sigmund og Bjarna.
Umræðum um fundarstjórn forseta er að ljúka í bili, eftir tæplega klukkustundar þingfund.