Miðflokkurinn segir að millifæra ætti helming af afgangi ríkissjóðs ár hvert beint á hvern Íslending á fullveldisdaginn, 1. desember. Sömuleiðis ætti hver fullorðinn Íslendingur að fá greitt auðlindagjald frá ríkissjóði sama dag.
Þetta kom fram í kynningu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, á kosningastefnu sinni sem fór fram í Hörpu í dag, en henni var streymt á vef Vísis. Í henni voru tíu stefnumál flokksins kynnt, en þau fólu í sér ýmsar niðurgreiðslur og millifærslur til íslenskra heimila og fyrirtækja.
Fyrsta stefnumál flokksins innihélt millifærslu til heimila á hluta af afgangi ríkissjóðs. Samkvæmt Sigmundi munu slíkar greiðslur skapa hvata fyrir stjórnmálamenn til að fara sparlega með skattfé og auka tekjur ríkisins eins og kostur er.
Samkvæmt öðru stefnumáli flokksins mun hver fullorðinn Íslendingur líka fá greitt það auðlindagjald sem ríkissjóður hefur fengið frá fyrirtækjum landsins. Þetta gjald ætti að vera tengt við arðbæra nýtingu auðlindanna, en á fyrsta ári muni millifærslan nema 100 þúsund krónur á núverandi verðlagi.
Sigmundur segir við hæfi að þessar greiðslur muni báðar eiga sér stað á fullveldisdeginum, 1. desember.
Ýmsar aðrar fyrirhugaðar niðurgreiðslur mátti finna í hinum átta tillögum flokksins. Þar á meðal var lagt til að hlutafé í Íslandsbanka yrði dreift með jöfnum hætti til íslenskra ríkisborgara. Þá var einnig lagt til að ríkið myndi veita mótframlag sem gæfi öllum Íslendingum tækifæri til að eignast eigið húsnæði og að einstaklingum yrði leyft að ráðstafa 3,5 prósentustigum af lífeyrissparnaði sínum í húsnæðiskaup.
Sigmundur minntist einnig á orkukostnað, en samkvæmt honum ætti slíkur kostnaður að vera sá sami fyrir alla íbúa landsins, óháð búsetu. Samkvæmt honum er ekki samræmi í því að líta á orkuauðlindina sem sameign þjóðarinnar og rukka svo mismikið fyrir hana.