Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, blöskrar umræðan um nýlega flugferð utanríkismálanefndar Alþingis til Washington. Í kjölfar ferðarinnar birtust frétt í fjölmiðlum þar sem kom fram að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefði kastað upp yfir aðra flugfarþega.
Þá hefur verið fullyrt að Ásmundur Einar hafi verið ofurölvi í flugvélinni, og uppköst hans megi rekja til þess. Ásmundur hefur sjálfur borið við veikindum í fluginu, og hefur varamaður hans tekið sæti hans á Alþingi þar til hann jafnar sig á veikindunum.
Séð hann torga einum bjór með hvatningu
Í viðtali sem birtist á Eyjunni í dag, segir Sigmundur Davíð það alvarlegt mál hvernig veist hafi verið að æru þingmannsins.
„Því að í fyrsta lagi er Ásmundur Einar líklega sá þingmaður sem drekkur minnst áfengi af öllum sem á annað borð eitthvað drekka á þingi. Ég held að ég hafi séð hann komast í gegnum einn bjór á heilu þorrablóti og það með hvatningu viðstaddra, þá náði hann að torga einum. Svo veiktist hann þarna og virðist hafa verið fárveikur maðurinn. En búinn að þola alls konar sögusagnir og það sem var verst að þingmenn sem voru með í för, og sérstaklega einn þingmaður sem reyndar var ekki með í þessari tilteknu flugferð, skyldu fara að dylgja um hann og jafnvel að tala um hvort og hversu oft hann hafi sést fara á salernið. Þá finnst mér menn komnir yfir nýja línu og út fyrir einhver mörk sem menn ættu ekki að að fara út yfir.“
Fleiri hafa komið Ásmundi til varnar
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrum flokksbróðir Ásmundar Einar, tók upp hanskann fyrir þingmanninn í pistli sem hann birti á vefsíðu sinni í gær. Þar vildi hann bregðast við staðhæfingum um að Ásmundur Einar hafi kastað upp vegna ölvunar í umræddri flugferð, sem Ögmundur var reyndar ekki í.
„Nokkrir fjölmiðlar hafa útmálað þetta á dramafenginn hátt. Það mun vissulega vera rétt að Ásmundur hafi orðið illa veikur. Það mun líka vera rétt að hann hafi fengið sér vín.
En veikur var hann alla ferðina og kastaði upp á leiðinni út og á leiðinni heim og kom áfengi þar hvergi nærri. Heimkominn leitaði hann læknis sem setti hann á lyfjakúr og ráðlagði honum að vera frá vinnu um sinn. Engu að síður brást hann við kalli um að mæta á nefndarfund og í atkvæðagreiðslu þótt veikur væri. Sagt er að hann hafi brosað í þingsal, veikur maðurinn!“
Að lokum skrifar Ögmundur á vefsíðu sína: „Vitnisburður velviljaðra ferðafélaga kemur heim og saman við kynni mín af Ásmundi Einari. Ég hef kynnst honum vel á undanförnum árum, fyrst sem félaga mínum í VG síðan sem samstarfsmanni á Alþingi. Margoft hef ég tekið þátt í gleðskap með Ásmundi Einari og í ljósi þeirrar reynslu fullyrði ég þetta: Hann er hófsemdarmaður og stendur hann mörgum okkar framar að því leyti.“