Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðar stóraukin framlög til ýmissa málaflokka í byrjun næstu viku. Þetta fjármagn sé tilkomið vegna svigrúms sem skapist við uppgjör slitabúa gömlu bankanna sem þegar sé byrjað að myndast með skattlagningu sem nemi tugum milljarða króna á ári. Sigmundur segir einnig telja megi líklegt að „það dragi enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en langt um líður“. Þetta kom fram í ræðu Sigmundar sem hann flutti á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem haldinn er á Höfn í Hornarfirði í dag.
Svigrúmið að myndast
Í ræðunni vék Sigmundur meðal annars að uppgjöri slitabúa bankanna. Þar sagði hann að „svigrúmið margumrædda vegna uppgjörs slitabúa bankanna, sem eru í eigu kröfuhafanna margumræddu, er þegar byrjað að myndast með skattlagningu sem nemur tugum milljarða á ári og telja má líklegt að það dragi enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en langt um líður.“
Hann ræddi einnig breytingar á fjárlögum og fyrirhugaða aukningu á framlögum til ýmissa málaflokka. Orðrétt sagði Sigmundur:„Nú í byrjun nýrrar viku munum við sjá að traustari stoðum verður rennt undir fjölmörg mikilvæg verkefni og stofnanir ríkisins. Þannig munu heilbrigðis- og menntastofnanir fá aukin framlög en einnig aðrar grunnstoðir eins og Landhelgisgæslan og mikilvæg verkefni á borð við lýðheilsuátak og byggðamál.”
Segir framlög til Landsspítala verða þau hæstu frá 2008
Um breytingar á skattkerfinu tilkynnti Sigmundur að nauðsynleg lyf muni lækka í verði: “Þegar allt er talið á matvælaverð ekki að hækka vegna breytinganna um nema í mesta lagi um 1,4% og helst ekki neitt. Flestar vörur munu lækka í verði og nauðsynleg lyf alveg sérstaklega. Heildaráhrif breytinganna þýða að neysluskattar lækka verulega og, það sem er mikilvægast, áhrifin verða mest hjá þeim tekjulægstu.”
Að endingu vék hann að stöðu heilbrigðiskerfisins og að sagði að nú sér gert ráð fyrir að á næsta ári verði framlög til Landsspítalans verði þau mestu sem þau hafa verið frá hrunárinu 2008, bæði í krónutölu og að raunvirði.
Allt að 35 prósent útgönguskattur
Kjarninn greindi nýverið frá því að væntingar eru til þess að áætlun um afnám fjármagnshafta verði kynnt á allra næstu vikum. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið það sterkt í skyn að undanförnu og á meðal kröfuhafa fallina íslenskra banka er búist við því að skilyrði fyrir samþykkt á nauðasamningum þeirra verði kynnt mjög fljótlega, mögulega í síðustu viku nóvembermánaðar.
Heimildir Kjarnans herma að búist sé við að um verði að ræða svokallaðan flatan útgönguskatt á eignir þrotabúanna. Ef kröfuhafar vilji út þurfi þeir að greiða flatan skatt af öllu fjármagni sem þeir fái að fara með út úr íslensku efnahagskerfi. Samhliða verði kynntar hugmyndir um hvernig leyst verði úr eignarhaldi Íslandsbanka og Arion banka, sem í dag eru báðir í eigu erlendra kröfuhafa.
Morgunblaðið greindi skömmu síðar frá því að hugmyndir væru uppi um að láta skattinn vera 35 prósent. Það myndi þýða að ríkissjóður gæti átt von á 300 til 500 milljörðum króna ef áætlunin gengur upp. Ljóst er þó að kröfuhafar slitabúanna muni reyna að berjast gegn slíkum útgönguskatti og að undirbúningur fyrir þann slag er þegar hafin.