Forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, greiddi um átta milljónir króna í opinber gjöld á árinu 2014. Það er rúmlega helmingi minna en hann greiddi árið 2013 þegar forsætisráðherrann greiddi alls 18,1 milljón króna í opinber gjöld. Helsta ástæða þess að greiðslur hans lækka jafn mikið á milli ára og raun ber vitni er sú að auðlegðarskattur er ekki lengur í gildi á Íslandi, en hann greiddu einstaklingar sem eiga meira en 75 milljónir króna í hreinni eign eða hjón sem áttu yfir 100 milljónir króna. Sigmundur Davíð og eiginkona hans voru þar á meðal.
Austurfrétt greinir frá þessu og hefur upplýsingar um greiðslur forsætisráðherra úr álagningaskrám á Fljótsdalshéraði, en Sigmundur Davíð er skráður með lögheimili á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð. Í frétt miðilsins segir að Sigmundur Davíð hafi verið í 15. sæti yfir þá sem greiddu hæstu opinberu gjöldin á Austurlandi árið 2013 en að hann hafi ekki komist inn á lista yfir 20 hæstu greiðendurna vegna ársins 2014.
Þar segir einnig að samkvæmt álagningarskrám hafi Sigmundur Davíð borgað um átta milljónir í skatta í ár, þar af 2,76 milljónir í útsvar og 5,12 milljónir í tekjuskatt. Í fyrra hafi hann hins vegar greitt 2,3 milljónir í útsvar, átta milljónir í tekjuskatt og 7,8 milljónir í auðlegðarskatt sem ekki er lengur til staðar.