Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það sé ,,furðulegt hvað menn æsa sig sumir og reyna að flækja mál sem er í raun sáraeinfalt", og á þar við stöðu umsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Það sé óheiðarlegt að viðhalda stöðu umsóknarríkis. Íslendingar vilji ekki aðild.
Hann segir að það hafi ekki verið Alþingi, og þaðan af síður þjóðin, sem sótti um aðild að sambandinu. "Það var síðasta ríkisstjórn sem gerði það og það gerði hún með ýmsum fyrirvörum, m.a. áskildu þau sér rétt til að slíta viðræðunum á hvaða stigi sem væri." Þetta er haft eftir honum í Morgunblaðinu í dag.
Tilefnið er bréf Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Evrópusambandsins um að Ísland vilji ekki lengur vera skilgreint sem umsóknarríki að sambandinu. Líkt og Kjarninn greindi frá í gær lítur Evrópusambandið ekki svo á að umsókn Íslands hafi verið dregin til baka þrátt fyrir bréfið. Því er Ísland enn flokkað sem umsóknarríki.
Ekki heil brú
Sigmundur Davíð segir þann meirihluti sem hafi samþykkt umsóknina um aðild á þingi hafa verið þvingaðan og núverandi þing styðji hana ekki. " Verkbeiðni síðasta þings til síðustu ríkisstjórnar hefur augljóslega ekkert gildi fyrir nýja ríkisstjórn. Ef sú væri raunin gæti núverandi meirihluti skuldbundið öll þing framtíðar. Það væri augljóslega ekki lýðræðislegt,« skrifar Sigmundur Davíð.»Þá stendur bara eftir spurningin: dettur einhverjum í hug að það sé sanngjarnt að ætlast til þess að núverandi ríkisstjórn, sem er alfarið andvíg aðild að Evrópusambandinu, lýsi því yfir að hún vilji sækjast eftir aðild og taki að sér að klára það sem síðasta ríkisstjórn sigldi í strand?
Semsagt, finnst einhverjum raunhæft að ætlast til þess að ný ríkisstjórn láti stjórnast af þvingaðri ályktun síðasta þings og það meira að segja án þess að njóta þeirra fyrirvara sem síðasta ríkisstjórn þó tók sér þegar hún áskildi sér rétt til að slíta hvenær sem væri. Það er ekki heil brú í að halda því fram að það hvíli enn meiri skylda á nýrri ríkisstjórn sem er á móti aðild en ríkisstjórninni sem sótti um og sagðist geta slitið hvenær sem væri.
Gleymum því ekki að það að vera umsóknarríki er yfirlýsing um vilja til að ganga í ESB. Það vilja Íslendingar ekki, og lái þeim hver sem vill, og það vill ríkisstjórnin ekki. Þess vegna væri óheiðarlegt að viðhalda stöðu umsóknarríkis. Afstaðan er skýr: Við viljum ekki ganga í ESB og af því leiðir að við viljum ekki sækjast eftir því að ganga í ESB."