„Ríflega 80 milljarða króna hagnaður viðskiptabankanna þriggja eftir skatta á árinu 2014 er staðfesting á þeim mistökum sem gerð voru við endurreisn bankanna eftir hrun.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Þar kemur fram að bankarnir séu of stórir og „ávinningurinn af endurmetnu lánasafni kemur í hlut Arion banka og Íslandsbanka en ekki ríkisins sem þó bar áhættuna af endurreisninni.“
Þá segir Sigmundur Davíð að núgildandi lög heimili ekki undanþágur eins og þær sem bankarnir hafi fengið eftir hrunið, varðandi eignarhaldið á þeim.
„Lögum samkvæmt gilda strangar reglur um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Sérstakar undanþágur í lögum þurfti til að heimila kröfuhöfum að eignast bankana á árinu 2009. Núgildandi lög heimila ekki slíkar undanþágur þannig að nú stæðist það ekki lög að afhenda kröfuhöfum bankana eins og gert var á sínum tíma,“ segir Sigmundur Davíð.
Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans frá hruni er um 360 milljarðar króna. Stór hluti þessa hagnaðar kemur til vegna endurmats á lánasöfnum sem færð voru á helmingsafslætti yfir í nýja banka en eru mun meira virði. „Arðsemi eigin fjár bankanna er langt umfram það sem aðrir atvinnurekendur eiga að venjast og það þó eigið fé bankanna hafi safnast upp frá stofnun þeirra. Eigið fé bankanna þriggja er nú um 600 milljarðar króna og hefur meira en sjöfaldast að núvirði frá aldamótum,“ segir Sigmundur Davíð í greininni.
Hann segir breytingar á eignarhaldi bankanna óhjákvæmilegar á næstu misserum, og að enginn geti leyft sér að gera lítið úr greiðslujafnaðarstöðu þjóðarbússins í því samhengi. „Á næstu árum eru breytingar á eignarhaldi bankanna óhjákvæmilegar. Stjórnvöld þurfa að finna leiðir svo skipulag bankakerfisins tryggi skilvirka miðlun fjármagns til og frá heimilum og fyrirtækjum á hagkvæman og öruggan hátt. Enginn getur leyft sér að tala um greiðslujafnaðarvanda Íslendinga af léttúð. Í einfeldni telja sumir að unnt sé að komast hjá efnahagsáföllum með því að styggja engan og halda öllum góðum, en slíkt er ekki raunhæft. Þvert á móti þarf skýra sýn og sterka forystu þar sem hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi,“ segir Sigmundur Davíð.