Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að hrægammasjóðir og aðrir kröfuhafar föllnu bankanna hafi eytt 19 milljörðum króna í að verja hagsmuni sína og kaupa ráðgjöf á Íslandi. Þeir hafi lagt gríðarlega mikið á sig til að hanna atburðarrás sér í vil og ráðið til þess íslensk almannatengslafyrirtæki. Mikill hluti starfa þeirra hafi farið í að láta ráðamenn líta illa út. Þetta kom fram í viðtali við forsætisráðherra í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi.
Þar ræddi hann einnig möguleg þinglok og ástæður þess að stríðsástand hafi verið á Alþingi á yfirstandandi þingi. Sigmundur Davíð sagði að það væri eins og minnihlutinn í þinginu teldi að völdunum hefði verið rænt af honum. "Það er líkast því að þeim finnist vitlaust hafa verið talið upp úr kjörkössunum fyrir tveimur árum og þeim beri að hafa völdin áfram.[...]Auðvitað vorum við sjálf nokkuð hörð í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili en þingið var þó starfhæft á þeim tíma. Nú er svo ekki. Það er beinlínis misnotað. Ég hef í dag ekki hugmynd hvort samkomulag næst um þinglok í dag eða eftir heilan mánuð."
Þinglok gætu orðið í næstu viku
Í Fréttablaðinu í dag er hins vegar greint frá því að þinglok gætu mögulega orðið í lok næstu viku. Þar er rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og flokksbróðir Sigmundar Davíðs. Hann segir að gengið hafi verið að flest öllum kröfum stjórnarandstöðunnar varðandi breytingar á makrílfrumvarpinu, sem hefur verið mikill þyrnir í augum hennar. Því sé flötur fyrir samstarfi að ljúka þingi. Undir þetta tekur Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sem telur þinglok geta orðið í lok næstu viku.