Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna, sem hófst í dag, að erlendir vogunarsjóðir hafi keypt sér hagsmunagæslu á Íslandi fyrir 18 milljarða króna.
Í yfirlitsræðu sinni fór formaður Framsóknarflokksins yfir árangurinn á kjörtímabilinu, og gerði losun fjármagnshafta að umfjöllunarefni og sagði að stærsta hindrunin við losun hafta væri hin óuppgerðu slitabú föllnu bankanna. Þá boðaði forsætisráðherra að framkvæmd um losun fjármagnshafta verði hrint í framkvæmd áður en yfirstandandi vorþingi lýkur.
Í stöðugri hagsmunagæslu
Sigmundur Davíð sagði að langstærstur hluti krafnanna í búin sé í eigu erlendra vogunarsjóða, sem hafi keypt þær á brunaútsölu eftir fall bankanna, og þeir hafi varið miklum fjármunum í að verja hagsmuni sína hér á landi sem gætu numið allt að 2.500 milljörðum króna.
„Það er þekkt að flestar, ef ekki allar, stærri lögmannsstofur landsins hafa unnið fyrir þessa aðila eða fulltrúa þeirra. Það er leitun að almannatengsla-fyrirtæki sem starfar á Íslandi og hefur ekki verið í þjónustu sömu aðila auk fjölda ráðgjafar á hinum ýmsu sviðum,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni.
„Umsvifin eru nánast óhugnaleg og ómögulegt er að segja til um hversu langt þau ná, en nýlegar fréttir herma að kröfuhafar hafi keypt hagsmunagæslu hér á landi fyrir 18 milljarða króna á undanförnum árum. Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála. Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.“
Þá fullyrti forsætisráðherra í ræðu sinni að reglulega séu skrifaðar svokallaðar leyniskýrslur hérlendis fyrir kröfuhafana þar sem „... veittar eru upplýsingar um gang mála á Íslandi, í stjórnmálunum, opinberri umræðu, fjármálakerfinu og svo framvegis.“