Þjóðarstolt er mikilvægt þegar kemur að því að takast á við ýmiss konar vandamál, þar með talin fjárhagsleg vandamál eins og Icesave. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali í þættinum Business Daily á BBC World Service í morgun. Forsætisráðherrann var spurður um líkindi með kreppunni á Íslandi og í Grikklandi í þættinum, þar sem því var varpað fram að margir teldu að Íslendingar hefðu viðhaldið þjóðarstoltinu en Grikkir ekki.
Sigmundur sagði þjóðarstoltið mikilvægt. „Vegna þess að ef þú finnur til stolts gagnvart samfélaginu eða sögunni þá hjálpar það fólki að standa saman við að takast á við erfið mál og jafnvel standa frammi fyrir því sem kalla mætti hótanir,“ sagði hann. Jafnvel mætti tala um einelti gagnvart Íslandi í einhverjum tilvikum þegar kæmi að Icesave-málum.
Sigmundur sagði að það hefði verið spurning um þjóðarstolt Íslendinga að neita að borga fyrir Icesave. „Ég held að allir hafi verið sammála um að það ætti að borga innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi til baka en að það ætti sá aðili sem bar ábyrgð, þrotabú bankans, að gera, eins og nú hefur gerst,“ sagði Sigmundur.
„Það var alltaf ljóst að slitabúið hefði nægt fé til að borga innstæðueigendum til baka vegna neyðarlaganna, sem höfðu í för með sér að innstæðueigendur fengu forgang. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir Breta og Hollendinga,“ hélt Sigmundur fram.
Ekki alltaf verið ljóst að til væri fé
Það hefur hins vegar ekki alltaf verið ljóst að nægar endurheimtur yrðu í þrotabúi gamla Landsbankans til að hægt væri að greiða forgangskröfur til baka, þótt það sé nú orðið ljóst og hafi lengi verið talið líklegt. Sigmundur Davíð sagði sjálfur í grein eftir að EFTA-dómstóllinn hafði kveðið upp sinn dóm, í janúar 2013, að „nú virðist loks öruggt að þrotabú Landsbankans muni geta greitt allar forgangskröfur í búið, þar á meðal allar kröfur vegna Icesave, einnig kröfur breskra sveitarfélaga og annarra lögaðila.“ Árið 2011 sagði hann í grein í Morgunblaðinu að samkvæmt samningum sem þá voru á borðinu ættu Íslendingar einir að bera þá miklu áhættu sem væri fyrir hendi. „Eignir þrotabúsins eru enn að mestu leyti áhættufjárfestingar. Verði framhald á fjármálakrísunni í Evrópu mun verðmæti þeirra falla mikið.“