Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vék sæti þegar kom að ákvörðun um friðun gamla hafnargarðsins á Austurbakka, við hlið Tollhússins í Reykjavík. Það gerði hann vegna þess að Sigmundur Davíð vildi ekki að persóna hans yrði hluti af málinu. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Í stað hans var Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, sett forsætisráðherra í málinu. Hún ákvað sem settur forsætisráðherra að friðlýsa hafnargarðinn í heild.
Reykjavíkurborg hafði farið fram á að Sigmundur Davíð myndi víkja sæti þegar ákvörðunin væri tekin, meðal annars vegna þess að hann hefur tjáð sig um málið. Borgin dró í efa stjórnsýslulegt hæfi forsætisráðherra til að taka afstöðu til málsins, meðal annars vegna greinar sem hann birti um skipulagsmál í Reykjavík í ágúst. Reykjavíkurborg taldi einnig að friðun myndi hafa í för með sér „stórkostlegan kostnað fyrir ríkissjóð“. Þetta kom fram í bréfi Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns til forsætisráðuneytisins vegna málsins.
Í frétt RÚV er haft eftir Sigurði Má Jónssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, að forsætisráðuneytið hefði ekki tekið efnislega afstöðu til bréfs borgarlögmanns. Sigmundur Davíð hafi vikið sæti vegna þess að hann vildi ekki að persóna hans yrði hluti af málinu.
Ákveðið að skyndifriða – gríðarlegt tjón að mati lóðarhafa
Minjastofnun Íslands ákvað að skyndifriða hafnargarðinn í síðasta mánuði. Lóðarhafar hafa sagt að friðlýsing á hafnargarðinum muni að lágmarki valda þeim 2,2 milljarða króna tjóni. Lóðarhafar hafa sagst ætla að sækja það tjón úr hendi Minjastofnunar og því myndi það lenda á ríkissjóði Íslands verði tjónið staðfest. Skyndifriðunin og nú friðlýsingin setur framkvæmdir í uppnám og kemur í veg fyrir að hægt sé að byggja neðanjarðar.
Kjarninn greindi frá því að lögmaður lóðarhafanna Landsstólpa geri alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð Minjastofnunar og að tjón vegna þessarar ákvörðunar væri að lágmarki 2,2 milljarðar.
Stærsta byggingaverkefni til þessa í hjarta Reykjavíkur
Byggingarreiturinn að Austurbakka 2 er um 55 þúsund fermetrar að stærð og liggur frá Ingólfsgarði, yfir Geirsgötu að Tryggvagötu. Lóðarhafar eru Tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Situs ehf., Kolufell ehf., Landsbankinn og Bílastæðasjóður Reykjavíkur. Um er m.a. að ræða lóðina sem Harpa stendur á, lóðina sem lúxushótel á að rísa á við hlið hennar, lóðina sem Landsbankinn hefur haft hug á að reisa sér höfuðstöðvar og lóðina við hlið Tollhússins.
Á lóðinni er gert ráð fyrir byggingareit neðanjarðar. Sá byggingareitur nær yfir alla lóðina. Um er að ræða kjallara á tveimur hæðum með þjónustu og bílastæðum.
Allt í allt eru níu byggingareitir á Austurbakka 2. Félagið Landstólpar þróunarfélag ehf. á tvo þeirra. Í apríl 2015 var tekin fyrsta skóflustunga vegna upphafs framkvæmda á reitunum. Í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar af því tilefni segir: „Fyrirhugaðar framkvæmdir eru hluti af stærsta byggingaverkefni fram til þessa í hjarta Reykjavíkur. Samkvæmt deiliskipulagi má byggja á reitum 1 og 2 við Austurbakka, 21.400 m2 ofanjarðar. Áætlað er að þar verði íbúðir og fjölbreytt húsnæði fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, s.s. verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu. Auk þess verður byggður bílakjallari á reitnum sem verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á lóðinni, allt að Hörpu. Áætlað að sameiginlegur kjallari rúmi um 1.000 bíla“.
Framkvæmdunum á að ljúka árið 2018 samkvæmt áætlun.