Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, lagði fram frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands frá árinu 2011, á Alþingi 3. desember síðastliðinn. Í frumvarpi forsætisráðherra er meðal annars lagt til að sú breyting verði gerð á lögunum, að það verði framvegis í valdi hvers ráðherra að ákveða um aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Þá er sömuleiðis lagt til að kveðið verði á um almenna heimild til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta og stofnana, liggi fyrir samþykki viðkomandi ráðherra fyrir flutningunum sem og forstöðumanns stofnunarinnar og starfsmannsins sjálfs, án þess að auglýsa lausar stöður til umsóknar.
Ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi í september 2011. Í eldri lögum um stjórnarráðið var kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Þeirri heimild var bætt inn í lögin eftir niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðum Landmælingardómi frá árinu 1998. Þá var ákvörðun Guðmundar Bjarnasonar, þáverandi umhverfisráðherra, dæmd ólögmæt í Hæstarétti, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að valdið til að ákveða staðsetningu stofnunar og flutning hennar væri hjá Alþingi. Í lögunum um Stjórnarráð Íslands, sem tóku gildi árið 2011, var tekið út ákvæði um sjálfsákvörðunarrétt ráðherra um flutning og staðsetningu stofnana sem undir hann heyra.
„Geðþóttaákvarðanir“ ráðherra ráði ekki för
Bandalag háskólamanna (BHM) hyggst senda ítarlega greinargerð um frumvarp Sigmundar Davíðs um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, þegar það kemur til umsagnar í þingnefnd. BHM hefur hins vegar nú þegar gert athugasemdir við frumvarpið, þar sem bandalagið leggst alfarið gegn því. Bandalagið hyggst senda athugasemdirnar til forsætisráðuneytisins og þingmanna.
„Með því móti verði komist hjá því að ráðherrar taki geðþóttaákvarðanir um flutning ríkisstofnana, enda geti slíkar ákvarðanir komið mjög hart niður á starfsmönnum og fjölskyldum þeirra.“
BHM telur ekki rétt að endurvekja umrædda heimild ráðherra til að ákveða flutning og staðsetningar stofnana. Ekki hafi verið tilviljum að heimildin var felld brot, og frumvarpið sem varð að núgildandi lögum um stjórnarráðið hafi verið samið í forsætisráðuneytinu í samráði við sérfræðinga á sviði stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar.
Í athugsemdum BHM telur bandalagið að vald til að ákveða staðsetningu og flutning ríkisstofnana eigi að vera áfram hjá Alþingi. Með því móti verði komist hjá því að ráðherrar taki geðþóttaákvarðanir um flutning ríkisstofnana, enda geti slíkar ákvarðanir komið mjög hart niður á starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Þá sé það ekki í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð að fela ráðherrum einræðisvald til að ákveða hvar stofnanir skuli vera, eins og gert sé ráð fyrir í frumvarpi forsætisráðherra. Breytingin sem felist í frumvarpinu auki á lausung og geti ýtt undir að við hver ríkisstjórnarskipti og/eða ráðherraskipti, yrðu gerðar breytingar á stofnunum, þær sameinaðar, lagðar niður eða fluttar til, með tilheyrandi kostnaðarauka, raski og óþægindum, sem beinlínis gætu stefnt starfsöryggi starfsmanna í hættu og vegið að réttindum þeirra að öðru leyti.
Þá telur BHM að sá valdaflutningur sem felist í frumvarpi forsætisráðherra sé í miklu ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafi verið í samfélaginu á síðustu árum um að efla beri löggjafarvaldið og Alþingi sem stofnun og draga að sama skapi úr áhrifum framkvæmdarvaldsins.
Stjórnvaldi skylt að auglýsa lausar stöður
Í athugasemdum BHM er sömuleiðis gagnrýnd sú breyting sem frumvarp forsætisráðherra felur í sér, varðandi útvíkkun heimildar til að flytja starfsmenn milli ráðuneyta og stofnanna án þess að auglýsa lausar stöður til umsóknar.
BHM bendir á að lögum samkvæmt sé meginreglan sú að stjórnvaldi sé skylt að auglýsa allar lausar stöður, með ákveðnum undantekningum þó. Reglan byggi á jafnræðissjónarmiðum um að veita öllum sem áhuga kunna að hafa tækifæri til að sækja um opinbera stöðu. Þá búi að baki reglunni það sjónarmið að með slíku fyrirkomulagi sé betur tryggt að ríkið eigi kost á sem flestum færum og hæfum umsækjendum þegar ráðið sé í starf. Með frumvarpinu sé verið að draga verulega úr þeim sjónarmiðum sem eru að baki auglýsingaskyldu stjórnvalds.
Eins og kunnugt er tók Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einhliða ákvörðun í sumar um flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Áhöld eru um lögmæti ákvörðunarinnar, með hliðsjón af núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands. Þá hefur Norðvesturnefndin svokallaða lagt fram róttækar tillögur meðal annars um flutning RARIK til Sauðárkróks og skiparekstur Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð.