Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúar Framsóknarflokksins, hafi mátt sæta „mjög grimmum árásum andstæðinga sem hugsanlega leiddu til þess að þeir fóru að verja sig með ummælum sem þær hafa síðan viðurkennt að voru óviðeigandi.“
Sigmundur Davíð er í viðtali í DV í dag og er spurður um ummæli borgarfulltrúanna um múslima fyrir sveitarstjórnarkosninga. Hann segir að málið sé í grunninn dæmi um mál þar sem sama vitleysan sé endurtekin nógu oft til að koma ákveðnum stimpli á stærri hóp fólks.
Sveinbjörg Birna sagði fyrir kosningarnar að hún vildi ekki að múslimar fengju úthlutaðri lóð undir mosku á meðan það væri þjóðkirkja á Íslandi. Þá lýsti hún yfir áhyggjum af nauðungarhjónaböndum múslima á Íslandi. Í byrjun þessa árs var Gústaf Níelsson gerður að varamanni Framsóknarflokksins í mannréttindaráði borgarinnar, og sagði hann Sveinbjörgu hafa haft samband við sig vegna málefnalegra skrifa, meðal annars opins bréfs sem hann skrifaði til félags múslima. Hann hafði skrifað mikið gegn byggingu mosku og gegn hjónaböndum samkynhneigðra. Hann var að lokum látinn víkja sæti.
Ómerkilegasta form af stjórnmálum
„Þetta er mjög gott dæmi um það hvernig menn notuðu tilefni til að draga upp mynd af flokknum,“ segir Sigmundur um málið. „Mér þótti það þá og þykir það enn vera eitthvert lægsta pólitíska bragð og framganga sem ég hef séð frá því ég byrjaði í stjórnmálum og þótt mun lengra væri aftur litið. Þetta mál hefði aldrei þurft að snúast um meira en skipulagsmál en í stað þess að ræða málið á þeim forsendum var reynt að gera það að einhverju allt öðru en það var.“
Hann segir að ekki bara hafi verið ráðist á frambjóðendur flokksins heldur flokkinn allan, og dregin upp mynd af honum „sem gengur svo þvert á það sem einkennir fólk í þessum flokki. Mín reynsla af framsóknarfólki um allt land er að það sé upp til hópa gott fólk sem má ekkert aumt sjá, er jafnréttissinnað og velviljað öllum. Mér var svo misboðið vegna þessa að ég mun seint gleyma því. Það er ómerkilegasta form af stjórnmálum, að ráðast á hópa og stimpla þá fyrir eitthvað sem þeir eru ekki sekir um og reyna um leið að upphefja sjálfa sig.“
Í viðtalinu er Sigmundur Davíð einnig spurður um nýja fræðigrein eftir Eirík Bergmann, sem Kjarninn greindi frá, en í greininni kemst hann að þeirri niðurstöðu að Framsóknarflokkurinn beri flest einkenni þjóðernispopúlisma og óhjákvæmilegt sé að flokka hann með slíkum flokkum. „Eiríkur Bergmann virðist ekki hafa vit á þessum málum,“ segir Sigmundur. „Það er ekkert nýtt að menn reyni að endurskilgreina Framsóknarflokkinn hver eftir sínu nefi. Það er nokkuð sem miðjuflokkur mun alltaf þurfa að búa við.“ Miðjuflokkar eigi stundum erfitt með að útskýra áherslur sínar og muni „örugglega alltaf búa við það að einhverjir Eiríkar Bergmannar úr kreðsum annars staðar í pólitíska litrófinu reyni að útmála þá á sinn hátt.“