Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er mótfallinn því að Landsbankinn reisi nýjar höfuðstöðvar á lóð sem bankinn á við Hörpu. Sigmundur segir að ríkisbankinn ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör viðskiptavina sinna. Þetta kom fram í viðtali við Sigmund í kvöldfréttum RÚV.
Sigmundur sagði í fyrsta lagi að hann gerði athugasemd við skipulagsmálin, gert sé ráð fyrir allt of miklu byggingarmagni á milli Hörpu og gamla bæjarins.
Þá gagnrýnir hann forgangsröðun ríkisbankans sem hann telur að ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör viðskiptavina. „Og í þriðja lagi þá finnst mér það undarlegt ef banki sem er í almannaeigu, ætlar að fara gegn því sem virðist vera augljós vilji eigendanna - almennings og fulltrúa hans.“
Hann segir marga aðra staði eða jafnvel tilbúin hús geta gegnt hlutverki höfuðstöðva bankans. „Menn hafa til að mynda nefnt tollhúsið sem ég held að gæti nýst bankanum mjög vel.“
Sigmundur tekur þannig undir fleiri gagnrýnisraddir, en meðal þeirra sem hafa gagnrýnt áform Landsbankans eru samflokksmenn Sigmundar, þau Vigdís Hauksdóttir og Frosti Sigurjónsson, og Elín Hirst og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur bæjarráð Vestmannaeyja kallað eftir hluthafafundi til að ræða málið og bæjarstjórinn í Kópavogi hefur boðið fram húsnæði í bænum. Stjórnendur bankans segja hins vegar að bankinn sé miðborgarfyrirtæki og að með nýjum höfuðstöðvum geti bankinn sparað 700 milljónir á ári og borgað upp framkvæmdina á tíu árum.